KAFARI HÆTT KOMINN Í FLEKKUVÍK
Tveir kafarar komust í hann krappann um helgina í Flekkuvík á Vatnsleysuströnd. Þeir höfðu farið út að kafa í blíðskaparveðri en veðrið hríðversnaði skyndilega. Annar mannanna lenti í öldu og slóst utan í kletta. Hann fann fyrir miklum verk í brjósti og fæti eftir höggið. Hann tók þá af sér kafarabúnaðinn og synti út fyrir mesta straumkastið. Lögreglan ætlaði í fyrstu að freista þess að ná í manninn í björgunarbát en einsýnt þótti að það myndi ekki takast sökum veðurs. Þyrla frá Landhelgisgæslunni kom að lokum á vettvang og bjargaði manninum úr greipum Ægis. Kafarinn var fluttur á Sjúkrahús Reykjavíkur til aðhlynningar.