Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 25. júlí 2001 kl. 10:28

Kært til samkeppnisráðs

Skipasmíðastöð Njarðvíkur hefur kært úthlutun alls 419 milljóna króna styrkja, en allt féð rann til skipasmíðastöðva í kjördæmum Sturlu Böðvarssonar og Árna Johnsen. visir.is greindi frá.

Skipasmíðastöð Njarðvíkur hefur kært til samkeppnisráðs 419 milljóna króna styrki til slippstöðva sem felast í nýrri hafnaáætlun sem Alþingi samþykkti að tillögu samgöngunefndar á síðasta starfssdegi sínum í vor.

Stefán Sigurðsson, framkvæmdastjóri skipasmíðastöðvarinnar, segir að í hafnaáætluninni felist dæmigert kjördæmapot sem sé aðeins fallið til að drepa niður samkeppni í skipasmíðaiðnaðinum og þar með atvinnugreinina sjálfa. Hann segir að veita eigi alla slippstyrkina til fjögurra bæjarfélaga sem öll eru eða verða ýmist í kjördæmi Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra eða Árna Johnsens, formanns samöngunefndar Alþingis.

Stærstu styrkirnir fara til heimabæja ráðamannanna tveggja. Veita á 270 milljónum króna til byggingar þurrkvíar í Vestmannaeyjum, 83 milljónum til endurbóta á dráttarbraut í Stykkishólmi, 38 milljónum til endurbóta á skipalyftu á Akranesi og 30 milljónum króna til endurbóta á dráttarbraut á Ísafirði. Framlag ríksins er 60% af kostnaði við framkvæmdirnar en afganginn greiði eigandi þeirra, þ.e.a.s. sveitarfélögin.

„Bæjarsjóður á öll mannvirkin á þessum stöðum og leigir þau fyrirtækjum fyrir smánarupphæðir sem eru ekki einu sinni fyrir tilkostnaði. Það er ekki rekstrarforsenda fyrir þessi mannvirki og þess vegna er verið að styrka þau. Við ætlumst til að samkeppnisráð banni þessi styrki enda hefur ráðið áður fellt slíka úrskurði í samskonar málum. Það gengur ekki að vera í samkeppni og einn fær allt upp í hendurnar en annar ekki,“ segir Stefán Sigurðsson.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024