Kærði úttektir á debetkorti í Bandaríkjunum
Lögreglunni á Suðurnesjum barst í vikunni kæra frá íbúa í umdæmi vegna óheimilla úttekta á debetkorti hans. Þegar hann fór yfir kortayfirlit sitt kannaðist hann ekki við færslur frá því í byrjun júní.
Samkvæmt þeim hafði verið tekið út af kortareikningnum í 21 skipti í Bandaríkjunum. Korthafinn var á hinn bóginn staddur hér á landi á þeim tíma, en hafði notað kortið í Bandaríkjunum í upphafi árs. Hann lét þegar loka kortinu þegar hann sá hvernig í pottinn var búið.
Grunur leikur á að kortið hafi verið afritað þegar handhafinn notaði það í hraðbanka í Bandaríkjunum fyrir um það bil hálfu ári síðan og óprúttnir aðilar notfært sér upplýsingarnar til úttektanna.