Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kærði lögreglufulltrúa á Suðurnesjum vegna rangra sakargifta
Mánudagur 18. júlí 2011 kl. 13:30

Kærði lögreglufulltrúa á Suðurnesjum vegna rangra sakargifta

Fyrrum lögreglumaður hefur kært lögreglufulltrúa á Suðurnesjum fyrir rangar sakargiftir í kynferðisbrotamáli. Maðurinn sem kærir var sýknaður í málinu í Héraðsdómi Reykjaness. Fréttatíminn greindi frá þessu nú fyrir skömmu.

Maðurinn hefur einnig kært rannsóknarlögreglumann á höfuðborgarsvæðinu og kennara Lögregluskólans fyrir óviðunandi vinnubrögð við rannsókn málsins. Hann segir lögreglufulltrúann á Suðurnesjum hafa komið málinu af stað og sakað sig um kynferðisbrot eftir að hann fór heim af balli með eiginkonu lögreglufulltrúans. Héraðsdómur Reykjaness sýknaði lögreglumanninn fyrrverandi af ákærunni og taldi framburð hans trúverðugan.

Málið kom upp í september fyrir tveimur árum eftir skemmtun lögreglumanna á Suðurnesjum. Lögreglumaðurinn fyrrverandi fór heim til sín eftir skemmtunina ásamt eiginkonu lögreglufulltrúans. Lögreglufulltrúinn kom síðar heim til mannsins þar sem bæði eiginkonan og lögreglumaðurinn fyrrverandi voru fáklædd. Til stympinga kom milli mannanna tveggja.
Lögreglumaðurinn fyrrverandi segir í skýrslum og fyrir dómi að lögreglufulltrúinn hafi lamið eiginkonu sína eftir að hann kom á vettvang og af þeim sökum hafi hún meðal annars hlotið glóðarauga. Bæði lögreglufulltrúinn og konan urðu margsaga um með hvaða hætti konan hlaut áverkann.

Lögreglumaðurinn fyrrverandi sagði fyrir dómi að konan hefði viljað eiga við sig mök og þau gert tilraun til þess. Hann hefði hins vegar ekki getað það sökum ölvunar. Konan bar við minnisleysi en hún varð margsaga um hvað hún mundi frá kvöldinu.

Eftir að lögreglufulltrúinn og eiginkona hans höfðu yfirgefið hús lögreglumannsins fyrrverandi, óskaði fulltrúinn eftir því að samstarfsmenn hans á vakt keyrðu þau hjónin heim til sín. Þegar heim var komið tjáði lögreglufulltrúinn bílstjóranum og félaga hans að hugsanlega hefði konan hans orðið fyrir kynferðisbroti.
Það voru því orð lögreglufulltrúans um að kynferðisbrot hefði verið framið sem leiddu til þess að lögreglumaðurinn fyrrverandi var handtekinn, grunaður um brotin. Síðar um kvöldið var lögreglufulltrúanum og eiginkonu hans ekið á Neyðarmóttökuna í Reykjavík.

Fyrir nokkrum mánuðum kærði lögreglumaðurinn fyrrverandi lögreglufulltrúann og eiginkonu hans fyrir rangar sakargiftir. Hann telur að hinn starfandi lögreglufulltrúi á Suðurnesjum hafi logið upp á sig glæp sem ekki var framinn.

Nánar má lesa um málið á vef Fréttatímans hér.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024