Kadeco selur fasteignir á Vellinum fyrir 14 milljarða
Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, gekk í dag frá sölu á á 96 byggingum á starfssvæði Þróunarfélagsins. Kaupandi er Háskólavellir ehf. Um er að ræða skrifstofu, þjónustu- og íbúðarhúsnæði, alls um 155.000 m², en af því eru um 1.660 íbúðir. Heildarvirði samningsins er um 14 milljarðar króna og er húsnæðið að mestu leyti íbúðarhúsnæði.
Að Háskólavöllum standa fasteignaþróunarfélagið Klasi hf., Glitnir, Fasteignafélagið Þrek ehf., Fjárfestingafélagið Teigur ehf. og Sparisjóðurinn í Keflavík. Í tilkynningu frá Þróunarfélaginu segir að markmiðið m eð kaupunum sé að þróa heilsteypt háskólasamfélag sem mun styðja við þekkingaruppbyggingu á svæðinu. Þannig er það ein forsenda samningsins að Keili - miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs verði tryggðar 500 íbúðir til ráðstöfunar sérstaklega fyrir leiguíbúðir stúdenta.
Samningnum fylgja kvaðir í samræmi við þjónustusamning Þróunarfélagsins við Fjármálaráðuneytið og ákvæði laga um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu Keflavíkurflugvelli. Þær fela meðal annars í sér að óheimilt er fyrir Háskólavelli að framselja eignirnar í fjögur ár, nema með skriflegu samþykki Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Ennfremur verður framleiga íbúðanna í samstarfi við Þróunarfélagið og að gefnu tilliti til aðstæðna á fasteignamarkaði.
Samstarfsyfirlýsing vegna uppbyggingu þekkingarsamfélags
Þá hafa Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Háskólavellir, Reykjanesbær og Keilir, undirritað samstarfsyfirlýsingu um þróun, skipulag og uppbyggingu á háskólasvæðinu.
Í henni felst að aðilar hennar vinni saman að uppbyggingu alþjóðlegs háskóla- og þekkingarsamfélags ásamt því að styðja önnur einstök þróunarverkefni sem skilgreind verða um uppbyggingu svæðisins. Áhersla skal lögð á að leiða saman fyrirtæki og háskóla, fjármagn og þekkingu, aðstöðu og nýsköpun.
Jafnframt skuldbinda aðilar sig til að vinna að þróun og skipulagi þeirra svæða sem tilgreind eru sem háskólasvæði, með það að markmiði að fasteignir á svæðinu og svæðið sjálft komist hið fyrsta í arðbær not. Þessi samvinna aðila um þróun starfsemi og byggðar á svæðinu skal byggja á þeim markmiðum að hámarka gæði skipulags og uppbyggingar.
Því skal kappkosta að byggja upp spurn eftir íbúðum á svæðinu, en rík áhersla skal þó lögð á að hafa sem mest jákvæð áhrif á íbúðamarkað og samfélag í nærliggjandi byggðum.
Úr herstöð í háskólasamfélag
Þessi samstarfsyfirlýsing og sala umræddra eigna samræmist markmiðum Þróunarfélagsins um breytingu svæðisins til arðbærra borgaralegra nota á sem skemmstum tíma. Í tilkynningunni segir að uppbygging heildstæðs þekkingarsamfélags á Keflavíkurflugvelli hafi gengið vel og þar muni ofangreindir aðilar leika lykilhlutverk í framtíðinni. Samstarfsyfirlýsing þessi er liður í þeirri þróun og sóknartækifæri fyrir bæði háskólasamfélagið og íslenskt atvinnulíf með víðtæku námi og stórauknum tengslum lykilfyrirtækja og háskóla. Ljóst má vera að háskólastarf sé ört vaxandi arðbær alþjóðleg atvinnustarfsemi sem mun veita svæðinu forskot inní framtíðina.
Loftmynd/Oddgeir Karlsson