Kadeco: Áhugi frá Indlandi
Nokkur indversk fyrirtæki, þ.á.m. flugfélög og ferðaþjónustufyrirtæki hafa lýst yfir áhuga sínum á samstarfi við Kadeco, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar. Þetta kemur fram á vef Kadeco, en Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélagsins, var meðal samferðarmanna forseta Íslands í sendiför á vegurm Útflutningsráðs til Indlands í febrúar.
Ferðin var ætluð fyrirtækjum sem hafa áhuga á viðskiptum við Indland. Í þessari ferð tóku þátt fyrirtæki í fjármálastarfsemi, upplýsingatækni, ferðaiðnaði, fyrirtæki í orkugeiranum og tengdum atvinnugreinum auk Kadeco.
Einn af þeim þáttum sem Kadeco vinnur að er að kanna möguleika flugvallarsvæðisins til að tengja saman þrjár heimsálfur m.t.t. vöru- og fólksflutninga. Fundað var með forstöðumönnum nokkurra fyrirtækja þ.m.t. flugfélaga s.s. Kingfisher Airline, Air India og Jet Airways. Kynnt var fyrir þessum aðilum sú aðstaða sem til boða stendur á og við Keflavíkurflugvöll. Einnig átti Kjartan fund með Bird Group og í tilefni heimsóknarinnar var skrifað undir samstarfsyfirlýsingu á milli Bird Group og Kadeco. Bird Group er umsvifamikið fyrirtæki í ferðaþjónustu og þjónustustarfsemi við flugrekstur.
Á vef Þróunarfélagsins segri að samstarfsyfirlýsing þessi muni ýta undir grundvöll til frekari viðræðna á milli aðila um tækifæri í uppbyggingu á svið flugsækinnar starfsemi, ferðaþjónustu og upplýsingatækni.
Í ferðinni átti Kadeco einnig viðræður við flugmálaráðuneyti Indlands vegna möguleika á nýtingu Keflavíkurflugvallar. Móttökur voru að sögn mjög jákvæðar á allan hátt og mikill áhugi sýndur á mögulegu samstarfi í náinni framtíð.
Mynd: Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri KADECO, Mrs. Shirin Lalwani og Mr. Tribid Kumar Palit, fulltrúar Air India.