Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Jude Law í leyniför til Íslands?
Þriðjudagur 13. febrúar 2007 kl. 10:51

Jude Law í leyniför til Íslands?

Breski stórleikarinn Jude Law lenti á Keflavíkurflugvelli síðdegis í gær. Tvær stórar svartar Benz-bifreiðar sóttu stórleikarann sem er hér á landi ásamt þremur börnum sínum, hinum 11 ára gamla Rafferty, sjö ára gömlu Iris og hinn fimm ára gamla Rudy. Með í för var barnapía þeirra en mikil leynd hvílir yfir ferðum leikarans. Fréttablaðið greinir frá þessu í dag og birtir ljósmyndir Víkurfrétta með umfjölluninni.

Law hefur löngum viljað vernda fjölskyldu sína frá kastljósi fjölmiðlanna og gekk meðal annars í skrokk á ljósmyndara sem reyndi að taka myndir af börnunum hans nýlega. Ljósmyndari Víkurfrétta, Hilmar Bragi, gætti sín af þeim sökum og forðaðist í lengstu lög að láta Law sjá sig.

Fréttablaðið hafði samband við fólk sem hefur ferjað stórstjörnur hingað til lands en allir komu þeir af fjöllum þegar fréttin um Law var borin undir þá. Ekki er vitað á þessari stundu hvort einhver verkefni liggi fyrir hjá Law hér á landi en hann er um þessar mundir að leika í kvikmyndinni Sleuth í leikstjórn Kenneth Brannagh ásamt leikstjóranum.

 Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins hefur Law komist í kynni við Ísland í gegnum mótleikkonu sína, Cate Blanchett, sem dvaldist hér á landi fyrir skömmu. Blanchett gisti á Nordica Hotel við Suðurlandsbraut en fór meðal annars á Hótel Búðir á Snæfellsnesi og borðaði á veitingastaðnum Við tjörnina. Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst mun Law væntanlega endurtaka þennan leik. Þá má fastlega búast við því að Law hafi heyrt af lofi stórleikarans Harrison Ford á indverskum mat hjá Austur-Indíafélaginu við Hverfisgötu.

Einkalíf Law hefur verið töluvert í umræðunni eftir að hann sagði skilið við eiginkonu sína Sadie Frost. Law tók saman við leikkonuna Siennu Miller en samband þeirra var vægast sagt stormasamt. Law átti í ástarsambandi við barnfóstru barna sinna og komst Miller að því.

Skömmu síðar komust breskir fjölmiðlar á snoðir um ástarsamband leikkonunnar og Bond-leikarans Daniel Craig og ákváðu hjónaleysin að segja sambandinu endanlega slitið eftir að hafa reynt um stutta hríð að láta hlutina ganga upp.

 

Texti: Fréttablaðið

Ljósmyndir: Víkurfréttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024