Jötunn við boranir á Reykjanesi
Stutt frá Saltverksmiðjunni á Reykjanesi eru starfsmenn Jarðborana að störfum með borinn Jötunn. Verið er að bora holu 13 og er Hitaveita Suðurnesja verkkaupi. Lokið var við borun í holu 12 rétt fyrir jólin en holan er sú dýpsta á háhitasvæði eða 2506 metrar að dýpt. Vinna við borun holu 13 hófst 20. mars sl. og er búið að bora rúma 800 metra. Bjarni Guðmundsson verkstjóri sagði í samtali við Víkurfréttir að borunin gengi ágætlega þrátt fyrir nokkra erfiðleika. „Borinn festist hjá okkur og við fengum sprengjudeild Landhelgisgæslunnar til að sprengja borinn lausan. Við erum að komast fyrir það vandamál og reiknum með að þessi hola verði um 2500 metrar að dýpt.“
Þór Gíslason aðstoðarframkvæmdastjóri Jarðborana hf. sagði í samtali við Víkurfréttir að borunin gengi samkvæmt áætlun. „Við gerum alltaf ráð fyrir svona töfum inn í áætlunum okkar og erfiðleikar í borun er eitthvað sem kemur fyrir af og til, enda er verið að bora djúpt í jörð þar sem aðstæður eru ófyrirséðar.“
VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Pallamaðurinn Torfi Geir Torfason, ásamt mastursmanninum Karli Huldari Arngrímssyni að störfum við Jötunn, en borinn er gríðarlegt mannvirki og rúmir 50 metrar að hæð.
Þór Gíslason aðstoðarframkvæmdastjóri Jarðborana hf. sagði í samtali við Víkurfréttir að borunin gengi samkvæmt áætlun. „Við gerum alltaf ráð fyrir svona töfum inn í áætlunum okkar og erfiðleikar í borun er eitthvað sem kemur fyrir af og til, enda er verið að bora djúpt í jörð þar sem aðstæður eru ófyrirséðar.“
VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Pallamaðurinn Torfi Geir Torfason, ásamt mastursmanninum Karli Huldari Arngrímssyni að störfum við Jötunn, en borinn er gríðarlegt mannvirki og rúmir 50 metrar að hæð.