Jón William Magnússon látinn
Jón William Magnússon forstjóri andaðist á Landspítalanum við Hringbraut 7. nóvember, 73 ára að aldri. Hann fæddist á Strandgötu 17 í Ólafsfirði 16. desember 1940, sonur hjónanna Magnúsar Jónssonar sjómanns frá Kálfsá og Guðlaugar Helgu Jóhannesdóttur húsmóður frá Grund, bæði frá Ólafsfirði.
Jón William stundaði nám við Iðnskólann á Ólafsfirði árin 1956-1958 er hann flutti suður til Keflavíkur, þá 17 ára að aldri, þar sem hann starfaði hjá Vélsmiðju Olsen og lauk þar sveinsprófi í vélvirkjun árið 1963. Jón William lauk síðan meistaraprófi í pípulögnum árið 1967. Hann stofnaði í kjölfarið fyrirtækið Rörlagnir ásamt samstarfsmönnum og var formaður félags íslenskra pípulagningamanna í nokkur ár frá árinu 1971.
Jón William var mikill brautryðjandi í atvinnurekstri og hafði sem slíkur mikil áhrif á samfélagið allt á Suðurnesjum. Jón William stofnaði Ofnasmiðju Suðurnesja 13. febrúar 1972. Var fyrirtækið rekið af fjölskyldu Jóns til ársins 2005 þegar það var selt eftir farsælan rekstur í 33 ár en Ofnasmiðja Suðurnesja var í fararbroddi í framleiðslu ofna hérlendis frá stofnun.
Jón William var einnig frumkvöðull í ferðaþjónustu og stofnaði Hótel Keflavík 17. maí 1986 ásamt fjölskyldu sinni og vann að uppbyggingu þess til dánardags.
Eiginkona Jóns William var Unnur Ingunn Steinþórsdóttir húsmóðir, fædd 13. febrúar 1942, látin 6. september 2010. Þau eignuðust fjögur börn, Magnús, Steinþór, Guðlaugu Helgu og Davíð.
Útför Jóns Williams fer fram frá Keflavíkurkirkju 18. nóvember og hefst athöfnin klukkan 13.