Jón Gunnarsson tekur ekki sæti á listanum
Jón Gunnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, ætlar ekki að taka sæti á framboðslista flokksins fyrir Alþingiskosningarnar í vor, að því er kemur fram á heimasíðu hans. Hann sagði auk þess í samtali við Ríkisútvarpið í dag, að hann myndi hætta í stjórnmálum.
Á heimasíðu sinni óskar Jón þeim frambjóðendum sem fengu bindandi kosningu í prófkjörinu til hamingju með árangurinn, sérstaklega Björgvini Sigurðssyni. Hann segir umboð hans óskorað og óumdeilt, en að sín útkoma hafi verið undir væntingum. "Við vissum að það væri raunveruleg hætta á því að skauta niður listann ef markmið um efsta sæti næðist ekki. Ég hlaut 1.032 atkvæði í 1. sætið og að sjálfsögðu er ég afar þakklátur fyrir þann stuðning og gott til þess að vita að yfir 1.000 þátttakendur í prófkjörinu vildu sjá mig leiða listann í næstu kosningum.
Það er einnig ljóst ef tölurnar eru skoðaðar nánar, að ég hef afar víða verið settur alveg út af listanum og lítið fylgi í 2-3 sæti vekur athygli. Svo virðist sem að þeir sem tóku þátt í prófkjörinu hafi annaðhvort viljað sjá mig leiða listann eða að ég hyrfi alveg af honum. Niðurstaðan er skýr og þar sem ég hlýt ekki bindandi kosningu í 5. sæti listans, mun ég ekki gefa kost á mér í uppröðun í sætin þar fyrir neðan; " segir Jón Gunnarsson á heimsíðu sinni.
Af visir.is