Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Jólatré endurunnið á nýjan máta
Klara Halldórsdóttir, hestakona í Grindavík.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 13. janúar 2023 kl. 07:24

Jólatré endurunnið á nýjan máta

Hestar Klöru Halldórsdóttur eru sólgnir í jólatré. Eru hrifnari af jólatrjám en flugeldaskothríð, segir Klara.

Klara Halldórsdóttir er hestakona í Grindavík en hún hefur vakið athygli í byrjun undanfarinna ára, þegar hún auglýsti á Facebook eftir jólatrjám fyrir hestana sína.

„Frá því að ég man eftir mér í hestamennsku hefur þetta tíðkast en hestabúskapur hófst hér í Vík í kringum 1960 og þá var þetta víst líka gert. Ég veit til þess að þetta tíðkast í kringum okkur svo við Grindvíkingar erum ekki þeir einu sem gefa hestunum okkar jólatré. Sumir mæla gegn þessu og vilja meina að nálar festist í munni eða hálsi hestanna en við höfum aldrei orðið var við það. Ég hef spurt dýralækna út í þetta og þeir veita þessu blessun sína – annars myndum við að sjálfsögðu ekki gera þetta. Hestarnir eru sólgnir í trén, sérstaklega börkinn en þeir éta hann allan upp til agna og þegar allt af trénu er farið þá eru þeir að naga tréð og leika sér með það. Það má kannski segja að jólin hjá hestunum séu að byrja núna, þeim finnst æðislegt að fá þessi tré og eru alltaf mjög fegnir þegar áramótin eru búin en flugeldaskothríðin fer ekki vel í dýrin. Við reynum að gera það sem við getum, höfum útvarpið hátt stillt á gamlárskvöldinu, byrgjum fyrir glugga og gerum það sem við getum til að láta hestana ekki verða vara við skothríðina.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er mikil gróska í hestasamfélaginu í Grindavík og í dag eru um 50 virkir knapar og líklega um 100 hestar á skeifum: „Við byrjuðum með keppnisnámskeið í byrjun desember í reiðhöllinni okkar austur í hverfi og mun það halda áfram fram á vor. Átján knapar skráðu sig til leiks og hefur verið mikið líf í kringum það. Auk þess eru önnur námskeið í gangi til að mennta félagsmenn enn frekar, og þá sérstaklega börn og unglinga. Svo erum við með marga fasta punkta yfir árið, ferðir á sumrin og reynum alltaf að ríða út þegar veður leyfir. Við erum alltaf með sumarnámskeið fyrir börn svo ég held að það megi alveg segja að það sé mikil gróska hjá okkur hestafólkinu í Grindavík,“ segir Klara að lokum.