Jólaskemmtanir grunnskóla falla niður - Reykjanesbraut opnuð á ný
Ákveðið hefur verið að aflýsa jólaskemmtunum í öllum grunnskólum Reykjanesbæjar sem áttu að vera þriðjudaginn 20. desember.
Ákvörðunin, sem er tekin í samráði við umhverfissvið bæjarins er til að tryggja öryggi barna, fækka bílum í umferð og til að snjómokstur geti gengið greiðlega fyrir sig.
Lögreglan tilkynnti undir kvöld opnun Reykjanesbrautar fyrir umferð frá Fitjum í Njarðvík en kaflinn þaðan að Flugstöð Leifs Eiríkssonar verði áfram lokaður vegna mikillar ófærðar og skafrennings. Grindavíkurvegur og vegurinn niður í Voga verða einnig lokaðir áfram af sömu ástæðu.
Uppfært kl. 23. Tilkynning frá Lögreglunni á Suðurnesjum: Búið er að loka Reykjanesbrautinni aftur vegna veðurs, ekkert ferðaveður á Reykjanesbrautinni eins og staðan er núna. Staðan verður endurmetin í fyrramálið.
Lögreglan vill ítreka að færðin innan sveitarfélaga á Suðurnesjum er ekki góð og hafa ökumenn á illa búnum bifreiðum fest sig á flestum stofnbrautum svæðisins. Bifreiðar sem eru skildar eftir yfirgefnar valda miklum vandræðum fyrir snjóruðningstæki og torvelda vinnu við að hreinsun gatna.