Jólahúsið í Suðurnesjabæ að Valbraut 2
Bæjarbúar í Suðurnesjabæ hafa lagt mikla vinnu í að lýsa upp skammdegið og mikill metnaður einkennir skreytingar. Sum heimili eru þó skreyttari en önnur og hafa þar af leiðandi vakið mikla og verðskuldaða athygli. Á aðventunni var ákveðið að velja jólahús í sameinuðu sveitarfélagi Garðs og Sandgerðis.
„Jólahúsanefndin var í miklum vandræðum að velja úr þeim fjölda tilnefninga sem bárust enda af nógu að taka. Nefndin fór skipulagðar ferðir um bæinn og má með sanni segja að bærinn hefur örugglega aldrei verið eins vel skreyttur og í ár,“ segir í frétt á vef sveitarfélagsins.
Það hús sem hlýtur titilinn Jólahús ársins 2018 að þessu sinni er Valbraut 2, Garði en það fékk flestar tilnefningar frá bæjarbúum. Húsið er stílhreint, bjart og virkilega fallegt.
Í öðru sæti er ljósahúsið Holtsgata 39, Sandgerði og í þriðja sæti er litríka Hlíðargata 43, Sandgerði.
Vinningshafar fá blómvönd frá sveitarfélaginu ásamt því að fyrsta og annað sæti fá vegleg gjafabréf frá HS veitum.
HS Veitum eru færðar þakkir frá jólanefndinni fyrir stuðninginn ásamt bæjarbúum fyrir góða þátttöku í valinu.
Holtsgata 39, Sandgerði.
Hlíðargata 43, Sandgerði.