Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Jólagjöf til þríburanna í Grindavík
Miðvikudagur 18. desember 2002 kl. 11:48

Jólagjöf til þríburanna í Grindavík

Nú í vikunni færðu Samkaup og Víkurfréttir þríburunum í Grindavík jólagjafir og vöktu gjafirnar mikla lukku á heimilinu, þríburunum voru færð föt, bleyjur og gjafabréf frá Samkaupum fyrir 100 barnamatskrukkum. Adam Jónsson, litli bróðir þríburanna fékk einnig torfærutrukk að gjöf sem hann var að vonum ánægður með. Þær Anna María, Natalia og Thea voru hinar ánægðustu með heimsóknina og gjafirnar og undu sér vel þegar Sigurrós Benediktsdóttir settist með þær allar þrjár í sófann, en Rósa hefur starfað hjá Samkaup í tæp 50 ár, fyrst hjá Kaupfélaginu og síðar Samkaup.
Foreldrarnir Jón Ársæll Gíslason og Janja Lucic voru mjög ánægð með gjafirnar og sögðu að þetta skipti þau miklu máli, enda er dýrt að vera með þrjú lítil krýli á heimilinu og lítinn strák: „Auðvitað er þetta mikið álag en að sama skapi er þetta mjög gaman. Stelpurnar eru allar heilbrigðar og það hefur sem betur fer ekkert verið að og það er fyrir öllu,“ segir Janja. Stelpurnar dafna allar vel og þyngjast með hverjum deginum. Anna María var 11 merkur þegar hún fæddist og er í dag 5,650 grömm. Natalia var 10 merkur en hún er mesti boltinn af þeim og er í dag 6,300 grömm. Thea var 11 merkur og er í dag 5,450 grömm, en þær fæddust þann 12. september sl. Janja segir að þær vakni mörgum sinnum á nóttu til að fá að drekka og þá sé oft mikið stuð á þeim: „Maður sefur ósköp lítið á nóttunni og stundum er þetta þannig að ein er vakandi á meðan hinar sofa og þegar hún sofnar, þá vaknar önnur og koll af kolli. Næturnar geta því oft orðið ansi langar,“ segir Janja og bætir því við að hún þurfi stundum að sparka Jóni út úr rúminu á nóttunni: „Hann sefur alltaf eins og steinn, en ég sparka honum bara fram úr og þá fer hann fram og sinnir stelpunum,“ segir Janja og brosir, en Adam litli bróðir er einnig duglegur að vakna með mömmu sinni á nóttunni og þá reynir hann að hjálpa henni. Jón starfar í vaktavinnu og segir Janja að þau séu búin að sækja um heimilishjálp frá Grindavíkurbæ: „Ég vona bara að heimilishjálpin komist fyrir jól, en þau hjá bænum eru ekki bjartsýn á að það takist. Jón verður að vinna alla rauðu dagana, nema á aðfangadag og jóladag og þá verður erfitt að vera ein með börnin því systir mín verður farin til Króatíu. En auðvitað hlakkar okkur mikið til jólanna og við ætlum okkur að hafa það gott,“ sagði Janja að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024