Jóhanna Gísladóttir landaði 11 túnfiskum í Grindavíkurhöfn
Það gerist ekki á hverjum degi að túnfiski sé landað á Íslandi en í gærmorgun kom Jóhanna Gísladóttir GK 557 úr tæplega fjögurra daga róðri sem farinn var sérstaklega í þeim tilgangi að veiða túnfisk. Heimasíða Grindavíkurbæjar greinir frá því að um tilraunaverkefni sé að ræða hjá Vísi.
Skipverjar á Jóhönnu Gísladóttur kom til hafnar í Grindavík í gær með ansi verðmætan afla en alls veiddust 11 túnfiskar í túrnum sem gekk vonum framar. Gert er ráð fyrir því að halda túnfiskveiðunum áfram næstu fimm vikur og næsta sumar verður svo alfarið helgað túnfiskveiðum. Stærsti fiskurinn var rúm 200 kíló en sá minnsti rúm 100.
Gott verð fæst fyrir túnfiskinn, þó að því gefnu að hann sé rétt verkaður og vandlega frá honum gengið. Með í veiðiferðinni var japanskur sérfræðingur sem leiðbeindi bæði við veiðarnar og verkun. Var fiskurinn vigtaður og honum pakkað í nýrri og glæsilegri aðstöðu Fiskmarkaðs Grindavíkur.