Jóhann Snorri sækist eftir 5. - 6. sæti
- á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ í komandi prófkjöri.
Jóhann Snorri Sigurbergsson sækist eftir 5.-6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ í komandi prófkjöri. Jóhann Snorri er 36 ára gamall viðskiptafræðingur og starfar sem forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá HS Orku. Hann er í sambúð með Gunnhildi Erlu Vilbergsdóttur viðskiptastjóra hjá Isavia á Keflavíkurflugvelli. Saman eiga þau 2 stráka, Darra Berg 8 ára og Arnór Berg 5 ára. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Jóhanni til Víkurfrétta.
Jóhann vann lengi við vöruþróun í fjarskipta- og sjónvarpsgeiranum hjá Símanum og Vodafone m.a. við innleiðingu stafræns sjónvarps hjá fyrirtækjunum og stofnun Leigunnar kvikmyndaveitu Vodafone. Auk þess starfaði hann sem markaðsstjóri SkjásEins.
Jóhann hefur verið varabæjarfulltrúi síðustu 4 ár.
„Í störfum mínum í gegnum árin og ekki síst síðustu 3 ár í störfum mínum hjá HS Orku hef ég öðlast mikla reynslu og skilning á því hvað þarf til að koma atvinnuverkefnum á koppinn og hvar raunhæfustu möguleikarnir í Reykjanesbæ liggja.
Reykjanesbær hefur stutt vel við þau verkefni sem hafa komið inná borð til þeirra og gert sitt til að veita þeim brautargengi. Mikilvægt er að halda því áfram og ekki síður að laða að sveitarfélaginu fleiri fyrirtæki með markvissri markaðssetningu á kostum svæðisins. Þannig náum við að fá spennandi fyrirtæki sem bjóða góð laun til svæðisins. Hlutverk sveitarfélagsins er að hjálpa einstaklingsframtakinu að vaxa og dafna til að upprisa atvinnulífs á svæðinu haldi áfram og atvinnuleysi minnki.
Ég sem foreldri barna á leik-og grunnskólaaldri legg mikla áherslu á að við byggjum upp fjölskylduvænt sveitarfélag með skóla og leikskóla í fremstu röð í fallegu umhverfi. Mikill árangur hefur náðst í skólastarfi síðustu ár sem samfélagið mun njóta ávaxtanna af í framtíðinni. Ég vil að börnin mín alist upp með menntun sem raunhæfan valkost og tækifæri til að mennta sig. En ekki síður að þau vilji koma aftur heim að námi loknu til að takast á við störf sem henta þeirra menntun.
Ég vil einnig að bærinn leggi áherslu á að koma enn frekar til móts við foreldra barna í íþrótta- og tómstundastarfi. Kostnaður foreldra vegna barna sem eru í íþróttum og tómstundum er mikill og verður óbærilegur fyrir marga ef börnin vilja leggja stund á fleiri en eitt áhugamál. Við þurfum að skoða hvernig við getum í samstarfi við íþróttafélögin, tónlistarskóla og aðra lagað þetta þannig að fjárhagur verði ekki aðaláhrifavaldur í ákvarðanatöku.
Ég hef setið í umhverfis-og skipulagsráði síðasta kjörtímabil og þar hefur verið mikil áhersla lögð á aukið umferðaröryggi og fegrun bæjarins auk stórbættra almenningssamganga með endurnýjuðu strætókerfi og fjölgun göngustíga.
Það er algjört lykilatriði að halda áfram að greiða niður skuldir til að spara vaxtakostnað og nýta þannig þá fjármuni til að byggja áfram upp samfélagið í Reykjanesbæ,“ segir Jóhann Snorri í tilkynningunni.