Jóhann sæmdur gullmerki Tollvarðafélagsins
Jóhann R. Benediktsson, fráfarandi lögreglusstjóri á Suðurnesjum, var í gær sæmdur Gullmerki Tollvarðafélags Íslands. Síðasti vinnudagur Jóhanns hjá embættinu er í dag en sem kunnugt er sagði hann upp störfum í síðustu viku ásamt þremur öðrum yfirmönnum embættisins.
Samstarfsfólk Jóhanns hjá Tollinum kvaddi Jóhann við þetta tækifæri í gær. „Við skiljum og virðum þá ákvörðun Jóhanns að hafa beðist lausnar frá embætti, þótt við séum engan veginn sátt við þau málalok,“ sagði Guðbjörn Guðbjörnsson, formaður Tollvarðafélagsins í ræðu sem hann flutti er hann veitti Jóhanni Gullmerkið.
„Margir voru hissa í vor þegar allir starfsmenn embættisins stóðu að baki Jóhanni R. Benediktsyni sem um einn mann væri að ræða. Þetta fólk vissi auðsjáanlega ekki að þegar rétti einstaklingurinn fer fyrir hópi fólks á réttum tímapunkti er alltaf hægt að treysta á að viðkomandi fylgi leiðtoganum, hvað sem það kostar og hvert sem haldið er...Jóhann hefur leitast eftir að gera það besta fyrir þá sem hann hefur þjónað: íslensku þjóðina og starfsmenn lögreglu- og tollstjórans á Suðurnesjum og af þeim sökum sæmum við hann Gullmerki Tollvarðafélags Íslands,“ sagði Guðbjörn ennfremur í ræðu sinni.
VFmynd/elg: Guðbjörn Guðbjörnsson og Jóhann R. Benediktsson við athöfnina í gær þar sem Jóhann var sæmdur Gullmerki Tollvarðafélags Íslands.