JÓHANN NEITAR AÐ KLÓRA YFIR SKÍTINN
Jóhann Geirdal (J) sagði á síðasta bæjarstjórnarfundi að nauðsynlegt væri að bæjarstjórnin tæki „Casino-málið” til efnislegrar umfjöllunar. Hann benti á að mögulegt væri að ýmis leyfi hefðu verið veitt á röngum forsendum, þ.e. að menn hefðu ekki vitað að þetta ætti að vera nektardansstaður. Jóhann hélt áfram og sagði að bæjarstjórnarfulltrúar yrðu að skoða vel hvort rétt hefði verið staðið að afgreiðslu málsins en ekki reyna að klóra yfir eigin skít. Þá tók Kjartan Már Kjartansson (B) til máls og tók sérstaklega fram að hann teldi sig ekki eiga þennan skít sem Jóhann talaði um. Hann sagði að málið hefði ekki farið rétta leið því menn hefðu vitað til hvers ætti að nota húsið þegar leyfi voru veitt og auk þess var umræddur veitingamaður þegar með áfengisveitingaleyfi. Kjartan lagði til að málið yrði ekki tafið frekar og bæjarstjórnarfulltrúar og fleiri sem sáu um afgreiðslu málsins, ættu að læra af reynslunni. Böðvar Jónsson (D) tók næstur til máls og sagði að nú væru fulltrúar J-listans að finna sér leið til að skafa upp skítinn eftir sjálfan sig, en þeir hefðu fengið mörg tækifæri til þess á undangengnum fundum bæjarstjórnar og bæjarráðs. Böðvar sagði það hefði verið rangt að leyfa, títtnefndum veitingamanni, að halda áfram framkvæmdum og veita honum öll leyfi, vitandi hvað ætti að fara þarna fram. Ef bæjaryfirvöld hafi aldrei ætlað að leyfa nektardansstað að opna í Reykjanesbæ, þá hefði átt að stöðva framkvæmdir við skemmtistaðinn strax. Tillagan um að taka málið til efnislegrar umfjöllunar var borin undir atkvæði og samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.