Jóhann Helgason stefnir Universal Music o.fl. vegna hugverkastuldar
Jóhann Helgason tónlistarmaður hefur ákveðið að stefna tónlistarrisanum Universal Music, norska lagahöfundinum Rolf Løvland og fleiri tengdum aðilum fyrir hugverkastuld í hinu heimsfræga lagi You Raise Me Up. Um er að ræða augljósan þjófnað á íslensku dægurlagaperlunni Söknuði. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá höfundinum.
Jóhann samdi lagið við texta Vilhjálms Vilhjálmssonar sem söng það inn á hljómplötuna Hana nú árið 1977. Um þessar mundir eru 40 ár liðin frá andláti Vilhjálms og er átakinu sem nú er ýtt úr vör meðal annars ætlað að heiðra minningu þessa ástsæla söngvara.
„Um leið og norski lagahöfundurinn Rolf Løvland skrifaði sig fyrir laginu You Raise Me Up sem Universal Music gaf út með texta Brendan Graham og söng Josh Groban vöknuðu grunsemdir um alvarlegan hugverkastuld,“ segir í tilkynningunni.
Fyrir tíu árum ákvað Jóhann að höfða mál gegn hinum meinta höfundi lagsins og útgefanda þess. Málið var þingfest fyrir breskum dómstólum og reyndist Universal Music reiðubúið til þess að taka til fullra varna. Ljóst var að sókn málsins gegn útgáfurisanum yrði gífurlega kostnaðarsöm og var fyrirhugaðri málshöfðun slegið á frest.
Nú hefur verið tekin ákvörðun um að halda málinu áfram. Lögmannsstofan TSPMH (tspmlaw.com) hefur sent kröfubréf til Universal Music og borist svar þar sem öllum ávirðingum um hugverkastuld er vísað á bug. Málaferli blasa því við og er áætlaður kostnaður við þau um ein milljón breskra punda. Fjárins verður aflað með þekktri aðferðarfræði þar sem fjárfestar fjármagna málaferli með hlutdeild í fjárhagslegum ávinningi að leiðarljósi. Gera má ráð fyrir að kröfur um höfundarlaunagreiðslur og skaðabætur muni hlaupa á milljörðum íslenskra króna.
Enska útgáfa lagsins Söknuður, Into the Light, er unnin af Jon Kjell Seljeseth og sungin af Edgar Smára Atlasyni með stuðningi Gospelkórs Óskars Einarssonar. Laginu verður dreift á netinu og áhersla lögð á að ná eyrum erlendra tónlistarmiðla. Bæði íslenskir og erlendir tónlistarfræðingar hafa borið saman lögin Söknuð og You Raise Me Up. Mat þeirra er að tónskylt efni laganna sé allt að 97% og er skyldleikinn undirstrikaður enn frekar með hinni nýju ensku útgáfu.
Lagið You Raise Me Up hefur til þessa selst í tæplega eitt hundrað milljónum eintaka og er löngu komið í flokk vinsælustu dægurlaga allra tíma. Yfir 600 listamenn hafa spreytt sig á ólíkum útsetningum og flutningi lagsins í yfir eitt þúsund ábreiðum á yfir 40 tungumálum. Lagið hefur oftsinnis verið flutt við opinber hátíðarhöld eða heiðursathafnir, s.s. á Ólympíuleikum, við nóbelsverðlaunaafhendingar, opinberar heimsóknir þjóðhöfðingja, á hátíðarstundum í Hvíta húsinu, í afmælishófum heimsfrægra leiðtoga og áfram mætti lengja telja. Nýlega bættist franski píanóleikarinn Richard Clayderman í hóp þeirra listamanna sem spreytt hafa sig á flutningi þessa fallega lags.