Jóhann Geirdal dregur uppsögn sína til baka
Fer í námsleyfi næsta skólaár
Jóhann Geirdal hefur dregið uppsögn sína sem skólastjóri Holtaskóla til baka. Í bókun bæjarráðs Reykjanesbæjar frá því í gær var eftirfarandi samþykkt samhljóða: „Í framhaldi af bréfi skólastjóra Holtaskóla sem liggur fyrir og fundi hans með bæjarstjóra og fræðslustjóra 13. febrúar s.l. er það sameiginleg niðurstaða að Jóhann Geirdal gegni áfram starfi skólastjóra við Holtaskóla. Bæjarráði er kunnugt um að Jóhann mun fara í námsleyfi næsta skólaár og felur fræðslustjóra að finna farsæla lausn á afleysingamálum meðan á námsleyfi Jóhanns stendur. Í samræmi við bókun bæjarráðs 31. janúar mun fara fram bæði fagleg og rekstrarleg úttekt óháðra aðila á sérdeildinni Eik í Holtaskóla.“