Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Jóhann Einvarðsson látinn
Mánudagur 5. nóvember 2012 kl. 12:00

Jóhann Einvarðsson látinn

Jóhann Einvarðsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Keflavík og alþingismaður lést sl. laugardag eftir veikindi.

Jóhann var 74 ára þegar hann lést en hann var fæddur árið 1938. Hann lauk samvinnuskólaprófi 1958 og starfaði eftir nám sem bókari og síðar fulltrúi í fjármálaráðuneytinu til ársins 1966 þegar hann tók við stöðu bæjarstjóra á Ísafirði. Því starfi gegndi hann til ársins 1970 þegar leið hans lá til Keflavíkur. Þar var hann bæjarstjóri til ársins 1980. Jóhann varð alþingismaður 1979 fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjaneskjördæmi og sat á þingi til 1983 og síðan aftur árin 1987-1991 og 1994-1995, samtals í níu ár. Þá var hann í bankaráði Útvegsbanka Íslands 1985-1987 og sat á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1980 og 1990.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jóhann sat um árabil í stjórn Hitaveitu Suðurnesja og var formaður stjórnar 1975-1979. Hann var formaður stjórnar Sjúkrahúss Keflavíkurlæknishéraðs 1970-1980 og síðar framkvæmdastjóri Sjúkrahúss Suðurnesja og Heilsugæslustöðvar Suðurnesja.

Jóhann kom víða við í félagsmálum, m.a. í handknattleiksforystunni og var í stórn HSÍ 1974-1976, sat í stjórn fulltrúaráðs framsóknarfélaganna í Keflavík og formaður þess 1984-1986.

Jóhann var félagi í Lionsklúbbi Keflavíkur og einnig í Oddfellowstúkunni Nirði í Keflavík en þar var hann heiðursfélagi og einn af stofnfélögum.

Jóhann lætur eftir eiginkonu, Guðnýju Gunnarsdóttur og þrjú uppkomin börn, Gunnar, Einvarð og Vigdísi.