Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Játuðu sölu fíkniefna
Mánudagur 30. desember 2013 kl. 13:10

Játuðu sölu fíkniefna

Tvö fíkniefnamál komu til kasta lögreglunnar á Suðurnesjum á undanförnum dögum. Húsleit var gerð í íbúðarhúsnæði í Keflavík, að fenginni heimild. Þar fundu lögreglumenn nokkurt magn af kannabis, amfetamíni og LSD. Einnig fjármuni sem taldir eru vera ágóði fíkniefnasölu. Tæplega þrítugur karlmaður og kona um tvítugt voru handtekin á vettvangi og játuðu þau vörslu og sölu fíkniefna.

Þá fóru lögreglumenn í fjölbýlishús í umdæminu vegna gruns um fíkniefnamisferli þar á bæ. Í stigagangi fannst kannabislykt sem leiddi þá að tiltekinni íbúð. Húsráðandi framvísaði kannabisefni og einnig voru í íbúðinni kvörn til að mylja kannabisefni, vigt og pappír til að vefja vindlinga.

Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024