Játaði manndráp í Keflavík
Rúmlega þrítugur karlmaður játaði fyrir Héraðsdómi Reykjaness í dag að hafa banað 53 ára gömlum manni við Bjarnarvelli í Reykjanesbæ. Hann lýsti því hvernig hann tók upp steinhellu og kastaði í höfuð mannsins þar sem hann lá í jörðinni. Árásin var tilefnislaus með öllu.
Að því er maðurinn, Ellert Sævarsson, sagði fyrir dómi hitti hann hinn látna á göngustíg við Bjarnarvelli að morgni 8. maí sl. Hafði hann þá verið undir áhrifum áfengis í tvo daga auk þess að neyta amfetamíns. Ellert réðst á manninn, sparkaði í hann þar sem hann lá í jörðinni og tók að endingu upp hellustein og kastaði í höfuð hans. Frá þessu er greint á mbl.is