Jarðvegsvinna að útvistarparadís í byrjun janúar
Það verður að teljast heldur óvanalegt að unnið sé í jarðvegsvinnu í byrjun janúar enda er það vaninn að töluvert frost sé í jörðu á þessum tíma ársins. Mikil hitatíð í vetur hefur þó gert það að verkum að starfsmenn Nesprýði eru á fullu í slíkum verkum og eru þeir þessa dagana m.a. að vinna við gerð útivistarparadísar við Fitjar. Verkið mun kosta um 40 miljónir en nú þegar hefur verið komið fyrir göngustíg um tjarnirnar ásamt því að ljósastaurum hefur verið komið fyrir um allt svæðið.Starfsmenn Nesprýði, sem átti lægsta tilboðið í verkið, eru þessa dagana að undirbúa lagningu þakna og hlaða veggi ásamt ýmsu öðru en áætlað er að verkinu ljúki í sumar. Að sögn Viðars Más Aðalsteinssonar framkvæmdastjóra umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar er hugmyndin að þarna verði einskonar umhverfismiðja, þar sem plantað verður trjám og ýmsum gróðri ásamt því að byggð verður bryggja út í tjarnirnar til fuglaskoðunar. Má búast við að svæðið verði orðið tilbúið í sumar enda hafa starfsmenn Nesprýði fengið ágætis forskot á verkið vegna góðrar tíðar.