Jarðvangur fær 3,5 milljónir úr Þróunarsjóði Ferðamála
Tólf styrkir voru veittir úr Þróunarsjóði Ferðamála á mánudag, 10. desember síðastliðinn, samtals 31,1 milljón króna, en að sjóðnum standa atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið og Landsbankinn. Þetta var önnur úthlutun úr sjóðnum og bárust honum 56 umsóknir að þessu sinni. Í fyrri úthlutun voru veittar 38,9 milljónir króna til 20 verkefna.
Meðal verkefna sem hlaut styrk að þessu sinni er Heklan, atvinnuþróunarfélag Suðurnesja – Jarðvangur á Reykjanesi. Alls hlaut félagið 3.450.000 m. kr.-
Styrkurinn er veittur til að vinna að uppbyggingu jarðvangs á Reykjanesi með það að markmiði að auka vöruframboð fyrir ferðamenn á svæðinu á jaðartímum. Með því móti má auka framlegð atvinnugreinarinnar í samvinnu fyrirtækja, menntastofnana og opinberra aðila í samstarfi við Geo Camp Iceland.
Þróunarsjóðurinn var stofnaður í tengslum við verkefnið Ísland allt árið. Markmið sjóðsins er að lengja ferðamannatímann á Íslandi, með því að efla starfsemi fyrirtækja í ferðaþjónustu utan háannatíma og auka á þann hátt arðsemi þeirra. Stofnendur sjóðsins lögðu fram 70 milljónir í upphafi, 40 milljónir komu frá Landsbankanum og 30 milljónir frá atvinnuvegaráðuneyti sem úthlutað skyldi í tveimur úthlutunum.
Ákveðið hefur verið að framlengja starfsemi Þróunarsjóðsins og verða á næsta ári veittar 35 milljónir króna úr honum.