Jarðskjálfti upp á fimm á Reykjanesi fannst víða
Harður jarðskjálfti að stærðinni nærri fimm varð á Reykjanesi kl. 23.36. Skjálftinn átti upptök sínum norður af Fagradalsfjalli rétt við Grindavík en miklar jarðhræringar voru á því svæði fyrr á þessu ári. Fjölmargir íbúar á svæðinu fundu fyrir skjálftanum sem mörgum fannst harður, miðað við viðbrögð fólks á samfélagsmiðlum. Skjálftinn fannst víða, meðal annars á höfuðborgarsvæðinu, á Stokkseyri, í Vestmannaeyjum og í Borgarnesi.
Skjálfti sem var 3,1 að stærð fylgdi í kjölfar þess stóra. Hann varð klukkan 23:46 1,5 kílómetra norðaustur af Fagradalsfjalli.
Samkvæmt upplýsingum frá veðurstofunni hafa orðið um 700 skjálftar við Fagradalsfjall í dag, sunnudag og viðbúið að þeir verði fleiri. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra minnir á viðbrögð við jarðskjálfta sem lesa má hér: https://www.almannavarnir.is/…/j…/vidbrogd-vid-jardskjalfta/