Jarðskjálfti í Helguvík
Jarðskjálfti upp á 1,6 á Richter mældist í Helguvík laust fyrir hádegið gær. Þegar betur var að gáð reyndist skjálftinn vera af mannavöldum því fyrirtækið S.E.E.S, sem hefur námaleyfi í Helguvík, framkallaði þar svo hressilega sprengingu að hún kom fram á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar.
Að sögn Svavars Sædal, sprengjustjóra hjá S.E.E.S, voru 5000 rúmetrar af jarðvegi losaðir í þessari sprengingu eða sem samsvarar 12.500 tonnum af föstu bergi. Notuð voru tuttugu kíló af sprengiefni og tvö tonn af svokölluðu „amfói“, sérstöku efni sem notað er til slíkra verka. Sprengiefninu var komið fyrir í sjö 18 metra djúpum holum.
Efnið sem losað var í sprengingunni verður notað í landfyllingu vegna rísandi iðnaðarhverfis í Helguvík.
Til fróðleiks má geta þess að árið 1996 framkölluðu Svavar og félagar hjá SEES jarðskjálfta upp á rúmlega þrjá á Richter í sprengingu sem losaði 12 þúsund rúmmetra af jarðefni. Það samsvarar á bilinu 25 – 30 þúsund tonnum. Sú sprenging var vegna tilkomu SR og hafnarframvæmda í Keflavíkurhöfn.
Í Vef TV Víkurfrétta má sjá myndbrot af sprengingunni í gær.