Jarðhræringar: „Minnir mjög á það sem var í gangi fyrir tveimur árum“
Annað eldgos í uppsiglingu?
Um kl. 16 í gær (4.júlí) hófst jarðaskjálftahrina í Fagradalsfalli og hafa um 1400 skjálftar mælst og má finna stærstu skjálftana á höfuðborgarsvæðinu og upp í Borgarfjörð. Búast má við áframhaldandi skjálftavirkni í dag.
Upptökin eru nálægt Keili og er fólki ráðlagt að vera ekki að ferðast um á svæðinu þar sem grjóthrun hefur verið og má búast við meira af því.
Íbúar í Grindavík og nágrenni, eru hvattir til að huga að innanstokksmunum.
Hjálmar Hallgrímsson er lögreglumaður í Grindavík og man vel eftir síðustu skjálftahrinu og eldgosinu sem fylgdi í kjölfarið. „Almannavarnir Grindavíkur mun funda í dag kl. 13 og þá förum við betur yfir stöðuna. Þessi skjálftahrina sem er núna í gangi minnir mjög á það sem var í gangi fyrir tveimur árum en svona skjálftar eru týpískir undanfarar eldgoss en við skulum samt halda ró okkar. Við hér í Grindavík erum vön að takast á við svona lagað og munum leysa þetta verkefni eins og okkur einum er lagið,“ segir Hjálmar.
Fannar Jónasson er bæjarstjóri Grindavíkur. „Við Grindvíkingar erum öllu vanir og höldum ró okkar. Við erum í nánu sambandi við vísindasamfélagið sem fylgist vel með á hvaða dýpi skjálftanir myndast og hvort breyting er á landrisi. Sem betur fer er þetta á svipuðum slóðum og síðast og ef kemur til eldgoss, er varla hægt að ímynda sér betri staðsetningu. Sem betur fer er líka bjart í dag og ég hvet fólk til að halda ró sinni. Það er best að nálgast þetta með stóískri ró en auðvitað skil ég vel ef svona skjálftar trufla fólk, það er bara eðlilegt,“ sagði Fannar