Jákvætt viðhorf íbúa á Suðurnesjum
Meirihluti íbúa á Suðurnesjum hefur jákvætt viðhorf til sveitarfélagsins og er viðhorfið jákvæðast í Grindavík en síst í Reykjanesbæ.
Þetta kemur fram í íbúakönnun sem gerð var á Suðurnesjum í september af SSV ráðgjöf og Háskólanum á Akureyri. Könnunin sem er samstarfsverkefni sveitarfélaga á Vesturlandi, Norðurlandi og Suðurnesjum var send til 1500 íbúa en alls tóku 1018 þátt sem er 67,9% svarhlutfall.
Gáfu þátttakendur sveitarfélögunum einkunn á skalanum 1 - 7 þar sem 7 var að öllu leyti jákvætt, 6 mjög jákvætt og 5 frekar jákvætt. Meðaltal þátttakenda var 5,29 og má því telja viðhorf íbúa á Suðurnesjum sé nokkuð jákvætt á heildina litið. Íbúar í Grindavík gáfu sveitarfélaginu einkunnina 5,52, íbúar í Sandgerði 5,27, íbúar í sveitarfélaginu Garði 5,38 og íbúar í Reykjanesbæ 5,03.
Athygli vekur að viðhorf íbúa af erlendum uppruna er jákvæðara til sveitarfélagsins en Íslendinga og þá er viðhorf þátttakenda á aldrinum 35-44 ára og 65 ára og eldri jákvæðara en annarra aldurshópa.
Þegar spurt var um álit á búsetuskilyrðum eftir málaflokkum voru eftirfarandi þættir metnir bestir:
Friðsæld, náttúra, umferð, öryggi, farsími og bókasöfn, þar sem friðsæld fékk hæstu einkunn. Af tíu verstu búsetuskilyrðum fékk málaflokkurinn launatekjur verstu einkunn, þar á eftir kom fjárhagsvandi og framfærsla, afþreying, háskóli og íbúðir.
Þeir málaflokkar sem höfðu áhrif á áframhaldandi búsetu voru: Öryggi, friðsæld, örugg umferð, mannlíf, atvinnuöryggi, internet, heilsugæsla, umferð, launatekjur og íþróttir.
þeir tíu málaflokkar sem höfðu síst áhrif á áframahaldandi búsetu voru: fjárhagsvandi, tónlistarskóli, félagsheimili, íbúðir, atvinnuleysi, framhaldsskóli, útlendingar, leiguíbúðir, atvinnurekstur og háskóli.
Einungis 16% töldu líklegt eða frekar líklegt að þeir myndu flytjast búferlum frá Suðurnesjum á næstu árum en líklegastir til að gera slíkt eru íbúar á aldrinum 18 - 24 ára og íbúar af erlendum uppruna.