Jákvætt tekið í umsókn Reykjanes jarðvangs um alþjóðlega vottun
Á fundi Evrópusamtaka jarðvanga á Ítalíu
Jákvætt var tekið í umsókn Reykjanes jarðvangs um aðild að alþjóðlegum samtökum jarðvanga á fundi Evrópusamtaka jarðvanga (European Geoparks Network) sem fram fór 3. september sl. Að sögn Eggert Sólberg Jónssonar verkefnastjóra koma samtökin til með að senda ábendingar á næstunni um það sem uppá vantar til þess að svæðið fái aðild að samtökunum. Áfram verði unnið að því að uppfylla þau markmið sem gerðar eru kröfur um til þess að fá þessa alþjóðlegu vottun. Að sögn Eggerts snúa ábendingar samtakanna fyrst og fremst að uppbyggingu innviða, merkingum og stefnumótun.
Eggert segir verkefnið vera á áætlun og afgreiðsla umsóknarinnar hafi verið eins og við var búist. Til eru dæmi um jarðvanga sem hafa þurft að bíða í nokkur ár eftir aðild enda miklar kröfur gerðar til jarðvanga frá þessum alþjóðasamtökum. „Þar af leiðandi vorum við ánægð að heyra hversu vel var tekið í umsókn Reykjanes jarðvangs og hversu langt við erum komin með okkar jarðvang eftir ekki lengri undirbúningstíma“.
Um 450 manns frá öllum heimsálfum sóttu ráðstefnu í kjölfar fundarins á Ítalíu, þar á meðal hópur frá Reykjanesi. „Okkur var sýndur mikill áhugi. Allt okkar kynningarefni rauk út og fyrirlestur um Reykjanes var vel sóttur. Þá er mikill áhugi til staðar á samstarfsverkefnum við Reykjanes jarðvang“ segir Eggert.
Reykjanes jarðvangur nær yfir allt land sveitarfélaganna Grindavíkur, Reykjanesbæjar, Garðs, Sandgerðis og Voga.
Jarðvangur er byggðaþróunarverkefni sem byggir á styrkleikum svæðisins, s.s. jarðfræði, náttúru og menningu en stuðlar að fræðslu, uppbyggingu og sjálfbærni. Sú alþjóðlega vottun sem Reykjanes jarðvangur sækist eftir er talin skipta máli fyrir uppbyggingu innviða í ferðaþjónustu á svæðinu, markaðssetningu og fræðslu á svæðinu.