Jákvætt að bæjarsjóður skili traustum rekstri þriðja árið í röð
segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar
Það er mjög jákvætt að þriðja árið í röð er bæjarsjóður að skila traustum rekstri. Þetta er fyrst og fremst að þakka mjög öflugu starfsfólki okkar sem tekst að veita góða þjónustu með litlum tilkostnaði. Allar kennitölur bæjarsjóðs sem miðað er við eru jákvæðar, segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri um ársreikning Reykjanesbæjar 2012.
„Okkur hefur tekist að lækka skuldir og skuldbindingar um þrjá og hálfan milljarð um leið og eiginfjárhlutfall, sem mælir eignir á móti skuldum vex úr 20,7% í 25%. Samstæðureikningurinn er okkur áfram erfiður vegna Helguvíkurhafnar, þótt hann líti vel út áður en afskriftir og fjármagnsliðir eru reiknaðir.
Mismunur rekstrartekna og rekstrarútgjalda er jákvæður um 2.8 milljarða króna (Ebitda). HS veitur, sem eru í meirihlutaeigu Reykjanesbæjar, eiga þar stærstan þátt . Þegar kemur síðan að fjármagnsliðum, skuldahliðinni, bera þeir þessa góðu tekjustöðu ofurliði og niðurstaðan þar er enn neikvæð. Þar er vandinn enn Reykjaneshöfn. Hún tapaði um 660 milljónum kr. á árinu. En verður fljót að bæta okkur það upp þegar atvinnuverkefnin taka að raðast inn.“