Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Jákvæð teikn og góð staða í Reykjanesbæ
Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar í ræðustól. VF-mynd/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 8. desember 2021 kl. 14:30

Jákvæð teikn og góð staða í Reykjanesbæ

-sagði Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Reykjanesbæjar 2022

„Við erum í fjandi góðri stöðu og mjög sátt með reksturinn þrátt fyrir áskoranir og erfiðleika eins og mjög  hátt atvinnuleysi í heimsfaraldri. Staðan er betri en áætlanir gerðu ráð fyrir og margt jákvætt í þessari fjárhagsáætlun. Við  erum að byggja nýja grunnskóla og íþróttamannvirki án þess að taka lán og erum að skila 3 milljörðum í handbæru fé. Þá hafa vaxtagjöld farið lækkandi og við erum að gera ýmislegt fyrir bæjarbúa. Við erum samt ekki að setja heimsmet en erum þó á góðum spretti,“ sagði Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar við síðari umræðu fjárhagsáætlunar Reykjanesbæjar á fundi bæjarstjórnar í gær, 7. desember. Fjárhagsáætlun var samþykkt með atkvæðum meirihlutans en minnihluti bæjarstjórnar sat hjá í atkvæðagreiðslunni.

Gert er ráð fyrir jákvæðri afkomu samstæðu að upphæð 46 milljónir kr. en að rekstur A hluta bæjarsjóðs verði neikvæður um 650 milljónir króna. Þá er gert ráð fyrir að grunnfjárfesting eignasjóðs verði 580 m.kr. Á árinu 2022 verði haldið áfram með byggingu íþróttahúss og sundlaugar við Stapaskóla sem hófst á árinu 2021 fyrir 1.400 m.króna, grunnfjárfesting Fráveitu verði 150 m.króna, fjárfestingar Reykjaneshafnar 295 m.króna og framlag til byggingu nýs hjúkrunarheimilis 150 m.króna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gert er ráð fyrir 2% íbúafjölgun fyrir árin 2022 til of með 2025. Útsvar verður 14,52% á árinu 2022 líkt og undanfarin þrjú ár. Álagningahlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði lækkar úr 0,32% í 0,30% og á atvinnuhúsnæði úr 1,52% í 1,50%.  

Meðal minni en þá ekki síður mikilvægari mála má nefna að hvatagreiðslur verða hækkaðar, daggæsla frá 18 mánaðar aldri verður niðurgreidd til jafns við leikskól. Framkvæmdir við nýjan leikskóla í Hlíðahverfi hefst á nýju ári og þá verður komið upp rafhleðslustöðvum fyrir almenning til að styðja við orkuskipti í samgöngum, svo örfá dæmi séu tekin úr bókun meirihlutans sem sjá má hér að neðan.

Bókun meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar:

Fjárhagsáætlun ársins 2022 ber þess merki hversu mikil áhrif Covid-faraldurinn hefur haft á sveitarfélagið, samfélagið og rekstur Reykjanesbæjar, rétt eins og svo margra annarra sveitarfélaga. Þannig má nefna að atvinnuleysi fór í 25% á árinu, sem er það mesta sem mælst hefur í sögu þessa sveitarfélags. Þrátt fyrir talsverðar áskoranir framundan, er fjölmargt jákvætt að finna í þessari síðustu fjárhagsáætlun kjörtímabilsins og staðan talsvert betri en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. 

Í forsendum fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022 er gert ráð fyrir að atvinnuleysi fari minnkandi, verði 7%  og að íbúafjölgun á næsta ári verði 2%.

Til að koma til móts við hækkandi fasteignamat er álagningarstuðull fasteignaskatts í A-flokki (þ.e íbúða) lækkaður úr 0,32% í 0,30%, B-flokkur verður óbreyttur í 0,32% og C-flokkur (atvinnuhúsnæðis) fer úr 1,52% í 1,50%

Gert er ráð fyrir jákvæðri afkomu af samstæðu þ.e. A og B hluta kr. 46.884.000.- en að rekstur A hluta bæjarsjóðs verði neikvæður um kr. 650.692.000.-

Strax árið 2023 er hins vegar gert ráð fyrir jákvæðri afkomu A hluta bæjarsjóðs, m.a vegna minnkandi atvinnuleysis og aukinna tekna.

Þá er gert ráð fyrir að tæpum tveimur milljörðum verði varið í fjárfestingar á árinu 2022 og skiptir það mestu uppbygging íþróttamannvirkja við Stapaskóla.

Framtíðarsýn Reykjanesbæjar til 2030

Til þess að framfylgja þeirri stefnu sem birtist í „Framtíðarsýn Reykjanesbæjar til 2030“ verða áherslur á komandi ári meðal annars á málefnum barna, vellíðan íbúa, vistvænu samfélagi, fjölbreytileika starfa og skilvirkri þjónustu.  Sem dæmi má nefna eftirfarandi: 

Börnin mikilvægust

  • Hvatagreiðslur verða hækkaðar úr 40.000 kr. í 45.000 kr.
  • Daggæsla frá 18 mánaða aldri verður niðurgreidd til jafns við leikskóla
  • Innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna verður lokið
  • Innleiðing á þverfaglegu samstarfi í þágu snemmtækrar þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra
  • Framkvæmdir við 6 deilda leikskóla í Hlíðarhverfi verða hafnar
  • Unnið verður að byggingu íþróttahúss og sundlaugar við Stapaskóla
  • Safnafræðsla til leik-og grunnskólabarna verður efld
  • Vinna við að koma Myllubakkaskóla í starfhæft ástand 

Vellíðan íbúa

  • Unnið verður að byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar í samvinnu við ríkið
  • Unnið verður að byggingu nýs hjúkrunarheimiis í samvinnu við ríkið 
  • Unnið verður áfram með verkefnið „Velferðarstofa“ í samvinnu við félagsmálaráðuneytið og opinbera aðila á svæðinu sem miðar að því að styrkja og samþætta þjónustu á svæðinu.
  • List á mannamáli – námskeiðahald vildarvina og rafræn dagskrá
  • Áframhaldandi innleiðing þjónandi leiðsagnar í þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir

Vistvænt samfélag 

  • Áfram verður unnið að gerð aðgerðaráætlunar í framhaldi af samþykkt nýrrar umhverfis- og loftlagsstefnu sem mun leiða okkur að þeim markmiðum sem sett eru fram í stefnunni 
  • Áfram verður unnið að innleiðingu Hringrásarhagkerfisins sem samþykkt var á árinu 2021
  • Áfram verður unnið að heilsustígagerð með áherslu á Ásbrú
  • Aukinn kraftur verður settur í gróðursetningu trjáa og skógrækt en það er liður í kolefnisjöfnun sveitarfélagsins 
  • Unnið verður með Kölku að breytingum á sorphirðu og aukinni flokkun vegna nýrrar reglugerðar sem tekur gildi 1. janúar 2023 
  • Áfram verður unnið að sameiginlegum verkefnum sem snúa að innleiðingu Heimsmarkmiðanna í samstarfi við sveitarfélögin á Suðurnesjum, Isavia, Kadeco og SSS
  • Komið verður upp rafhleðslustöðvum fyrir almenning til að styðja við orkuskipti í samgöngum

Fjölbreytt störf

  • Á fyrri hluta ársins 2022 mun Reykjaneshöfn bjóða út nýframkvæmdir við Njarðvíkurhöfn sem felast í uppbyggingu skjólgarðs til varnar núverandi hafnarmannvirkjum ásamt dýpkun innan hins nýja hafnarsvæðis. Með tilkomu þeirrar framkvæmdar mun hafnaraðstaðan í Njarðvíkurhöfn gjörbreytast til hins betra og höfnin skilgreinast sem lífhöfn. Þessi uppbygging mun jafnframt skapa tækifæri til atvinnueflingar á hafnarsvæðinu, bæði fyrir fyrirtæki sem nú þegar eru þar til staðar sem og fyrir ný hafntengd fyrirtæki. Framkvæmdatíminn er áætlaður tvö til þrjú ár með heildarkostnaði yfir milljarð króna.
  • Áfram verður unnið að mótun atvinnuþróunarstefnu
  • Áfram verður að mótun markaðsstefnu
  • Sett verður upp vefsíða fyrir fjárfesta sem hafa hug á að kaupa lóðir eða fjárfesta í sveitarfélaginu
  • Lokið verður við heildar endurskoðun aðalskipulags. Megin verkefnið er að bregðast við fólksfjölgun í sveitarfélaginu sem búast má við að verði framhald á með þeim auknu kröfum til allra innviða sem vaxandi sveitarfélagi fylgir. Að leiðarljósi við þá endurskoðun hefur verið haft að vöxturinn byggir á ferðaþjónustu, sem einkennist af sveiflum og óvissu. Einnig að vægi umhverfismála vegur æ þyngra sem gerir kröfu um betri nýtingu landsins gæða

Kraftur fjölbreytileikans

  • „Allir með“ átaksverkefnið heldur áfram með fræðslu og þjálfun í jákvæðum samskiptum 
  • Hafist verður handa við byggingu nýrra íbúða fyrir fatlaða í samvinnu við Brynju hússjóð
  • Sýningahald listasafnsins endurspegli fjölbreytileika samfélagsins
  • Aðgengi að Duus safnahúsum verður bætt, nýtt anddyri búið til og lyfta sett upp

Skilvirk þjónusta

  • Unnið verður að innleiðingu stafrænna lausna í gegnum samstarfsvettvang sveitarfélaganna. 
  • Íbúalýðræði verður eflt með því að nýta samráðsvefinn „Betri Reykjanesbær“
  • Skilvirkara bókasafnskerfi verður sett upp og sjálfsafgreiðsla í bókasafninu efld
  • Stafrænt menningarkort verður innleitt
  • Heimasíða Reykjanesbæjar verður endurskoðuð
  • Ferlar verða endurskoðaðir til að sem flest mál verði leyst í fyrstu snertingu. 
  • Áframhald verður á vinnu skipulagsfulltrúa við að sjálfvirknivæða þjónustu.

Í gegnum verkefni sveitarfélagsins verður unnið með tólf af sautján Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og stutt við innleiðingu þeirra með beinum og óbeinum hætti. 

Reykjanesbær stendur sterkur, þrátt fyrir tímabundna erfiðleika, og sveitarfélagið mun halda áfram að vaxa og eflast á komandi árum. Jákvæð teikn eru á lofti um að framundan sé veruleg atvinnuuppbygging á svæðinu sem mun til lengri tíma styrkja sveitarfélagið og auka fjölbreytni atvinnulífsins. 

Við viljum þakka starfsmönnum Reykjanesbæjar samskiptin á árinu sem er að líða og óska þeim og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári, segir að lokum í bókun meirihlutans.

Framkvæmdir við nýjan leikskóla í Hlíðahverfi í Reykjanesbæ hefjast á nýju ári.