Jákvæð rekstrarniðurstaða gefur fyrirheit um hraðari viðspyrnu
Rekstur Reykjanesbæjar gekk betur en áætlanir gerðu ráð fyrir
Rekstur Reykjanesbæjar gekk betur en á horfðist á Covid-ári en rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs fyrir afskriftir og fjármagnsliði var jákvæð um 1,4 milljarða króna en að teknu tilliti til þeirra liða er rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins jákvæð um 82,6 milljónir króna.
Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins fyrir A og B hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 4,4 milljörðum króna, en að teknu tilliti til þeirra liða, var niðurstaðan jákvæð um 69,7 milljónir króna.
Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu 2020 námu um 25 milljörðum króna samkvæmt samstæðureikningi A og B hluta. Rekstrartekjur bæjarsjóðs eða A hluta námu um 17,3 milljörðum króna. Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins námu um 10,4 milljörðum króna en stöðugildi hjá sveitarfélaginu voru meðaltali 1.096. Þetta er hækkun upp á 1,7 milljarða milli ára eða um 18%. Skýringa er að finna í nokkrum atriðum s.s launabreytinga vegna kjarasamninga, fjölgunar stöðugilda og átaksverkefna sem ráðist var í á árinu til þess til að halda uppi atvinnustigi.
„Það hlýtur að teljast viðunandi niðurstaða að skila jákvæðri afkomu við þessar aðstæður sem uppi hafa verið. Fyrri áætlanir sem unnar voru fyrir Covid, gerðu ráð fyrir að bæjarsjóður yrði rekinn með tæplega 500 milljóna tekjuafgangi, en útkomuspá í október gaf til kynna að afkoman yrði neikvæð um einn milljarð.
Jákvæð niðurstaða nú ætti að gefa fyrirheit um að viðspyrnan verði hraðari en í upphafi var talið og hægt verði að lifa eðlilegu lífi að nýju innan skamms.
Við viljum nota tækifærið og koma á framfæri þakklæti til bæjarstjóra og hans góða starfsfólks fyrir að halda vel utan um reksturinn. Við höfum þrátt fyrir allt, verið á góðri siglingu sem sveitarfélag og þeirri góðu siglingu verður fram haldið,“ segir m.a. í bókun meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar á fundi hennar 18. maí.
Starfsfólki fjölgar og kostnaður eykst
-segir minnihluti bæjarstjórnar
„Það vekur athygli að á þessum erfiðu tímum þá skilar Reykjanesbær ársreikningi með 83 milljónum í hagnað. Samkvæmt endurskoðendum Reykjanesbæjar þá eru tekjur oftaldar um 150 milljónir og bæjarsjóður því með réttu rekinn með tapi.
Starfsfólki heldur áfram að fjölga hlutfallslega umfram fjölgun bæjarbúa. Stöðugildum fjölgar um 85 milli ára og þá eru vinnumarkaðsúrræði ekki meðtalin. Fjölgun starfsmanna hjá Reykjanesbæ er um 9,7% á meðan íbúum fjölgar um 1,3% og launakostnaður eykst um rúmlega 17% á milli ára (leiðrétt vegna vinnumarkaðsúrræða). Annar rekstrarkostnaður eykst síðan um 14% á milli ára skv. endurskoðendaskýrslu,“ segir í bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Frjáls afls á bæjarstjórnarfundi 18. maí við síðari umræðu um ársreikning sveitarfélagsins.
Í bókunninni er einnig gagnrýnd fjölgun stöðugilda hjá sveitarfélaginu og að launakostnaður hafi aukist um 32%. Þá muni Reykjanesbær ekki uppfylla fjárhagsleg viðmið sem sett eru í sveitarstjórnarlögum á komandi árum.