Já - Sameining Sandgerðis og Garðs samþykkt í íbúakosningu
Íbúar í Sandgerðisbæ og Sveitarfélaginu Garði samþykktu sameiningu sveitarfélaganna tveggja í íbúakosningu sem fram fór í dag en niðurstöður kosninganna voru kynntar á tólfta tímanum í kvöld í beinni útsendingu á fésbókarsíðu Víkurfrétta.
Í Garði samþykktu 71,5% íbúa sameininguna en 28,5% voru á móti. Á kjörskrá voru 1.134 og kusu 601 eða 53% þeirra sem voru á kjörskrá.
Í Sandgerði var sameiningin samþykkt með 55,2% atkvæða en 44,8% voru á móti. Á kjörskrá voru 1.200 manns og kusu 662 eða 55,2%. Þrír seðlar voru auðir og einn ógildur.
„Þá er það staðfest að nýtt og öflugt sveitarfélag á Suðurnesjum er að verða til. Það eru spennandi tímar framundan,“ sagði Ólafur Þór Ólafsson, formaður bæjarstjórnar í Sandgerði, þegar úrslitin voru kynnt.
Níu manna bæjarstjórn verður kosin í maí 2018 og í framhaldinu tekur hið nýja sveitarfélag til starfa. Íbúar fá þá að kjósa um nafn á nýju sveitarfélagi.
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga veitir nýja sveitarfélaginu 100 milljóna króna framlag til endurskipulagningar stjórnsýslu og þjónustu og 294 milljóna króna framlag til skuldajöfnunar. Einn bæjarstjóri verður fyrir sameinað sveitarfélag.
Frá kjörfundi í Sandgerði síðdegis í dag. VF-myndir: Hilmar Bragi