Karlakórinn
Karlakórinn

Fréttir

Ítrekað skotið á ketti með skotvopnum
Garðar var illa haldinn eftir byssuskot og þurfti að svæfa hann að lokum.
Mánudagur 11. mars 2024 kl. 18:37

Ítrekað skotið á ketti með skotvopnum

Dýravinasamtökin Villikettir í Reykjanesbæ og nágrenni hafa oftar en einu sinni fengið til sín ketti sem hafa verið skotnir með haglabyssu. Fyrir fáeinum árum var villikötturinn Grámann, sem var húsköttur Kölku í Helguvík, skotinn með haglabyssu. Hann var orðinn illa á sig kominn þegar honum var komið til Villikatta í Reykjanessæ, sem síðan fóru með hann til Dýralæknastofu Suðurnesja. Þar var Grámann myndaður og komu þá í ljós högl víða um líkama kattarins. Í síðustu viku vöktu Villikettir í Reykjanesbæ og nágrenni svo athygli á sögu Garðars, sem hafði verið fangaður í búr í Garðinum. Hann hafði einnig verið skotinn.

„Í júní 2023 fengum við ábendingu um haltan kött og náðist hann loks í búr í byrjun júlí. Hann virtist þá vera alveg snælduvitlaus, hvæsti bara og urraði á okkur og vorum við ekki viss um tíma hvort um væri að ræða villing eða vergangskisa. Var farið með hann til dýralæknis til að skoða á honum fótinn og var hann svæfður á meðan svo hægt væri að skoða hann almennilega. Ekkert kom út úr þeirri heimsókn og var talið að mögulega væri hann kominn með smá gigt sem hefði verið verri úti í kuldanum þar sem hann var jú nokkuð fullorðinn og á vergangi,“ segir í frásögn Villikatta.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Mánuði síðar sirka fór hann svo aftur til dýralæknis í geldingu og allan pakkann og upp úr því fór hann að sýna á sér aðra hlið og á endanum brotnaði þessi skel sem hann var búinn að setja upp og úr henni kom þessi svaka kúrubangsi sem bræddi alla. Hann virtist ekkert haltur eða neitt um tíma en fór svo að naga á sér fótinn og sína svona pínu skrítna hegðun og var einhver grunur um að mögulega væri hann með eitthvað ofnæmi og væri semsagt að naga sig því honum klæjaði.

En svo fann sjálfboðaliði fyrir einhverju hörðu undir húðinni á honum og var þá pantað strax tími fyrir hann hjá doksa og hann skoðaður og fjarlægt „eitthvað stykki“ undan húðinni á honum. Fékk hann svo allskonar lyf með sér heim ( sýkla og verkjalyf). Þegar sjálfboðaliðar fara að skoða þetta stykki betur þá vaknaði grunur um að þetta væri partur af byssukúlu og eftir örstutt Googl fannst mynd af kúlu þar sem partur af henni leit nákvæmlega eins út og þetta stykki sem var tekið úr honum.

Hann fór á fósturheimili svo hægt væri að hafa meira eftirlit með honum, auðveldara að sjá um lyfjagjafir þannig og bara hann átti skilið smá extra dekur og fékk hann svo framtíðarheimili þar í kjölfarið.

En nú fyrir stuttu byrjaði hann að haltra, slappast upp og vildi alls ekki vera einn. Þá var farið með hann á aðra dýralæknastofu sem skoðaði hann og sendi í röntgen, sem hin stofan hafði ekki gert og kom þá í ljós að „öxlin“ á honum hefur stórskaddast af völdum höggsins af kúlunni og hefur elsku kallinn verið alveg sárkvalinn í allan þennan tíma en kettir eru svo miklir naglar að þeir láta oft seint sjást að þeir séu eitthvað veikir.

Þarna var tvennt sem kom mögulega til greina og það var að skoða hvort hann þyldi aðgerð þar sem fóturinn yrði tekinn af eða yrði svæfður. Var svo farið á enn eina stofuna og fengið annað álit þar sem sérfræðingur í beinum er og skoðað betur hvort hann væri í standi fyrir svona stóra aðgerð en því miður var hann orðinn of slappur og var því ekkert annað í stöðunni en að hann fengi svefninn langa.

Elsku fallegi strákurinn okkar sem átti svo allt það besta skilið en einhver illa innrættur einstaklingur rústaði lífi hans með því að skjóta hann,“ segir í færslu Villikatta í Reykjanesbæ og nágrenni.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem samtökinð fá í hendurnar kött sem finnast byssukúlur/ högl í og vilja Villikettir vekja athygli á þessu.

Það er ekki löglegt að skjóta ketti og vilja villikettir í Reykjanesbæ og nágrenni biðja ykkur sem vitið til einhvers sem gerir svoleiðis að tilkynna það til lögreglu!

Kötturinn Grámann sem varð fyrir skotárás 2020.

Skotið á Grámann Kölkukisa með haglabyssu

Hér er svo frétt um hann Grámann sem varð fyrir haglabyssuskoti í mars 2020:

Húsköttur Kölku í Helguvík, villikötturinn Grámann, varð fyrir fólksulegri árás en skotið var á hann með haglabyssu. Farið var með Grámann á Dýralæknastofu Suðurnesja þar sem kom í ljós að högl voru víðsvegar um líkamann.

Grámann er villiköttur úr Reykjanesbæ sem hefur haldið til við Kölku. Starfsmenn þar hafa veitt honum húsakjól og séð honum fyrir mat. Hann var geldur á vegum Villikatta fyrir um fjórum árum síðan og var þá ansi mikill villingur en er orðinn voða ljúfur og góður með tímanum og kemur alltaf i klapp þegar maður er að henda rusli.

Starfsmenn Kölku tóku eftir því fyrir nokkru síðan Grámann var farinn að haltra og farinn að slappast og orðinn ólíkur sjálfum sér. Hann var hættur að þvo sér og farinn að horast svo að sjálfboðaliðar Villikatta náðu í hann og fóru með til læknis.

„Í röntgenmyndatöku kom í ljós að hann var með högl víðsvegar um líkamann. Já þið lásuð rétt, einhver hefur skotið á hann með haglabyssu! Búið er að tilkynna þetta til lögreglunnar á Suðurnesjum,“ segir í færslu á vef Villikatta í Reykjanesbæ.

„Greyið kallinn er líklega búin að vera með þessi högl í sér í einhverja mánuði og þetta er búið að taka mjög á hann. Hann er með mikla sýkingu og var lagður inn yfir nótt hjá þeim á Dýralæknastofu Suðurnesja þar sem þær hjúkruðu honum. Nú er hann á góðu fósturheimili meðan verið er að skoða hvað hægt er að gera. Næsta skref er að hann fer eftir helgi í röntgen á munni til að sjá hvað er í gangi þar en hann er með slæman tannstein öðrumegin sem þarf að laga og hann er líka með hagl í kinninni sem verður metið hvort hægt sé að taka úr. Fóturinn hans verður skoðaður betur en eitt haglið skaddaði liðband hjá honum.

Hann Grámann er orðinn svo ljúfur og góður og á svo skilið allt það besta og við ætlum að reyna allt til að hjálpa honum. Við munum líka finna honum heimili þar sem hann ætti vonandi extra góð efri ár.

Allt þetta verður þónokkur kostnaður því biðjum við ykkur elsku kisuvinir um hjálp. Margt smátt gerir eitt stórt,“ segir jafnframt í færslunni þar sem birtar eru myndir af Grámanni og röntgenmyndir sem sýna höglin.

Styrktarreikningur: 0111-26-73030 kt: 710314-1790

Uppfært: Því miður hrakaði Grámanni og hann lifði ekki af þær hremmingar sem hann gekk í gegnum.