Íþróttaviðburðir varðveittir á Íþróttaminjasafni
Íþróttaminjasafn Reykjanesbæjar hefur fengið til varðveislu upptökur af 29 íþróttaviðburðum á árinu 2004.
Íþróttaminjasafnið var stofnað 5. júní 1998 en eitt af markmiðum þess er að safna myndböndum og filmum af íþróttaviðburðum til þess að þær glatist ekki. Varðveisla íþróttaviðburða er samkvæmt samningi sem gerður var við Viðar Oddgeirsson sjónvarpsmann og hefur verið endurnýjaður árlega frá árinu 1998.
Frumeintök eru geymd í Byggðasafni Reykjanesbæjar en hægt er að taka afrit af þeim til útláns. Margir einstaklingar nýttu sér þann möguleika á árinu auk félaga, m.a. notaði knattspyrnudeild Keflavíkur efni úr safninu við gerð kynningarmyndbands vegna Reykjaneshallarinnar.
Íþróttaminjasafn Reykjanesbæjar samanstendur af ljósmyndum, blaðaúrklippum, 8mm kvikmyndum, myndböndum, verðlaunapeningum og ýmiss konar íþróttaáhöldum.
Þessu til viðbótar var hrundið af stað verkefninu "Þeir gerðu garðinn frægan" þar sem tekin eru viðtöl við gamla íþróttakappa.
Einnig er verið er að kanna kostnað við yfirfærslu á 8mm filmum sem Páll Jónsson fyrrverandi Sparisjóðsstjóri hefur afhent Byggðasafninu til varðveislu en hann tók m.a. nokkuð af myndum á filmu sem tengdust íþróttum á Suðurnesjum.