Íþróttavellir taka til starfa á háskólavöllum
Íþróttahúsið á Keflavíkurflugvelli hefur verið tekið í notkun að hluta til. Húsið sem staðið hefur autt og ónotað síðan herinn kvaddi er nú að lifna við mun það iða af fjöri í allan vetur sem aldrei fyrr. Óhætt er að segja að þegar herinn byggði húsið fyrir um 40 árum síðan hafi orðið ákveðin vatnaskil fyrir íþróttamenn, ekki bara varnarliðsmenn heldur líka íslenska íþróttamenn. Húsið var mun stærra en þau íþróttahús sem fyrir voru á landinu og því voru landsleikir í handbolta og körfubolta oft á tíðum spilaðir á Keflavíkurflugvelli, auk þess sem mörg lið í nágrenni vallarins nutu góðs af þessu merka húsi.
Síðan þá hefur húsið tekið breytingum, bæði að utan og innan. Aðalsal húsins er hægt að skipta í tvennt. Í hvorum sal er hægt að spila körfubolta, blak, knattspyrnu og aðra boltaleiki. Sé salurinn óskiptur er hægt að leika körfubolta á löglegum keppnisvelli, auk annarra boltaíþrótta og leikja sem þurfa nægt rými.
Strax á vinstri hönd þegar komið er inn í húsið er lyftingarsalur með fullkomnum tækjum til að byggja upp þrek og kraft. Í húsinu eru einnig fjórir rúmgóðir salir til að leika veggtennis eða spila körfubolta, auk tveggja rúmgóðra sala sem verða notaðir til upphitunar(með hlaupabrettum,stigvélum og róðratækjum) og til að stunda jóga,eróbik,dans eða nútíma leikfimi til að krydda hið hefðbunda.
Stór sundlaug er svo í viðbyggingu sem kom síðar til sögunnar. Laugin er um 25*20 metra og um 4 metra djúp þar sem hún er dýpst. Ekki er alveg ljóst á þessari stundu hvenær hún verður tilbúin til notkunar. Búningsklefar hússins eru tveir og báðir feykilega rúmgóðir. Í báðum klefum er aðstaða til að fara í sauna og gufubað og mun sú aðstaða komast í gagnið fljótlega. Á næstu dögum og vikum munum við leigja út tíma í salina fyrir eintaklinga sem hópa og kappkosta að fá sem flesta til að hreyfa sig. Enda fátt betra fyrir líkamann og sálina en holl hreyfing.
Allar nánari upplýsingar um íþróttahúsið er hægt að fá hjá Tómasi Tómassyni, umsjónarmanni í síma 899-0525.
Mynd: Íþóttahúsið á Keflavíkurflugvelli er byggingin með græna þakinu. Það er á sama svæði og Keilir rekur sína starfsemi. Skólastarf Keilis er í dag í hvítu byggingunni með svarta þakinu, sem kölluð var kapella ljóssins. Stóra byggingin efst á myndinni með bláa þakinu verður háskólabygging Keilis og byggingin neðst er leikskólinn Völlur, sem er í eigu Keilis, en rekinn af Hjallastefnunni. Loftmynd: Oddgeir Karlsson