Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Íþróttaakademían: Strax farið að huga að stækkun
Laugardagur 26. ágúst 2006 kl. 12:30

Íþróttaakademían: Strax farið að huga að stækkun

Það var fyrir ári síðan sem Íþróttaakademían tók á móti fyrstu nemendum sínum og annar árgangurinn mun hefja þar nám eftir nokkra daga. Geir Sveinsson handboltakappi er framkvæmdastjóri Íþróttaakademíunnar og að hans sögn gekk fyrsta árið vonum framar. Nú er komin reynsla á starfsemina, stefnt er á að gera enn betur á þessu skólaári og starfið mun eflast með nokkrum  nýungum. Við tókum Geir tali og spurðum hann hvað er á döfinni hjá akademíunni.

„Bæði afreksbrautin og íþróttafræðin gengu mjög vel en þetta eru samstarfsverkefni okkar og Fjölbrautaskóla Suðurnesja annars vegar og Háskólans í Reykjavík hinsvegar,“  segir Geir. Afreksbrautin er nám til stúdentsprófs en íþróttafræðin er nám á háskólastigi og lýkur því með B.Ed. gráðu. „Í ár fengum við 90 umsóknir sem er fjölgun frá fyrsta árinu en við tökum 40 nemendur inn sem er svipaður fjöldi og hóf nám hér í fyrra. Auðvitað er leiðinlegt að þurfa að vísa fólki frá en aftur á móti getum við tryggt að við séum að fá til okkar besta fólkið,“ segir Geir.

Um 30% nemenda á fyrsta ári voru frá Suðurnesjum og Geir segir að í ár verið þeir eitthvað fleiri. Um 75 nemendur munu stunda nám við skólann á þessu ári og eru þá ekki meðtaldir þátttakendur í námskeiðum og fólk í fjarnámi við skólann því akademían hefur einnig verið með fólk í fjarnámi frá Háskólanum á Akureyri.  „Í ár munum við kynna nokkrar nýjungar og ber þar helst að nefna námskeiðahald, rannsóknarvinnu og fyrirlestra. Námskeiðin eru af ýmsum toga og eru fyrir alla sem hafa áhuga á íþróttum og heilsu og sækjast eftir þekkingu. Við fáum til okkar hópa og íþróttalið auk þess sem einstaklingar koma og taka þátt í námskeiðum. Við höfum nú þegar skipulagt nokkra fyrirlestra með erlendum fyrirlesurum. Meðal annars verður rætt um íþróttir barna og unglinga, hreyfiþroska þeirra og þroskaþjálfun,“ segir Geir.  Akademían stundaði rannsóknir á síðasta ári en á komandi önn munu þær færast mikið í aukana. Nemendur við skólann tóku þátt og aðstoðuðu við rannsóknirnar.

„Við stunduðum mælingar og greiningu í vetur og tókum fyrir nokkur íþróttalið, Keflavíkurliðið í knattspyrnu, körfuboltalið héðan af Suðurnesjum og handboltalið úr Reykjavík svo dæmi séu tekin. Það er nýjung hér á landi að lið geti fengið þetta allt á sama staðnum og við finnum að það er mikill áhugi á þessum rannsóknum. Þannig að það má segja að mesta áherslan verði lögð á námskeiðahaldið annars vegar og rannsóknirnar hins vegar auk þess sem við sinnum nýjum nemendum jafnt og þeim sem fyrir eru,“ segir Geir.  Byggingin sem hýsir Íþróttaakademíuna er glæsileg og hefur hlotið verðlaun fyrir fallegan frágang. Í húsinu eru, auk skrifstofa og kennslustofa, búningsklefar og íþróttasalur þar sem allt er til alls fyrir íþróttaiðkun. Húsið er staðsett beint á móti Reykjaneshöllinni, fjölnota íþróttahúsi Reykjanesbæjar, og stutt er í aðal íþróttasvæðið þar sem finna má íþróttahús, knattspyrnuvöll og sundlaugar bæjarins. Þótt aðstæður séu nú þegar mjög góðar munu þær verða enn betri þegar íþróttasvæði fyrir ofan Reykjaneshöllina verður að veruleika. Þar verður frjálsíþróttavöllur og knattspyrnuvellir og í bígerð hjá Reykjanesbæ er einnig fimleikahús.

„Þetta er frábær aðstaða og við höfum verið mjög ánægðir með viðtökur bæjarbúa,“ segir Geir. Á næstu árum mun nemendum fjölga til muna eftir því sem fleiri árgangar hefja nám við skólann, og umsvif í fjarkennslu og námskeiðum aukast. „Strax á næsta ári munu um 250 nemendur nýta aðstöðuna og þegar skólinn verður kominn í fulla nýtingu verða 350 eða jafnvel 400 nemendur við skólann. Það er mjög góð nýting á húsinu eins og er en þetta þýðir að fljótlega þurfum við að huga að stækkun. Við renndum blint í sjóinn með aðsóknina en hún hefur verið mjög góð,“ segir Geir og bætir við að þetta sé líklegast hin hefðbundna íslenska aðferð, nýkomin og strax farin að huga að stækkun. Aðstaðan til stækkunar er góð því í kringum skólann er svæði sem ekki er verið að nýta. Hluti af nemendum akademíunnar býr í heimavist sem staðsett er rétt hjá skólanum.

„Um áramótin verða tæplega 50 íbúðir tilbúnar og á endanum verða 72 íbúðir í næsta nágrenni við skólann. Það er mikil ásókn í íbúðirnar og nú þegar er kominn biðlisti,“ segir Geir enda eru þetta fínar tveggja og þriggja herbergja íbúðir.  „Reykjanesbær hefur stutt frábærlega við bakið á okkur sem og allir stofnaðilar. Það er mikill velvilji í garð akademíunnar og það hefur skipt mjög miklu máli fyrir okkur að finna fyrir því,“ segir Geir að lokum áður en hann þarf að þjóta og sinna erindum enda er að mörgu að hyggja þegar ný önn hefst. Það er ljóst að akademían er komin til að vera og er frábær viðbót við skólastarf sem og íþróttahreyfinguna á Íslandi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024