Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Íþróttaakademía: Skóflustunga tekin á laugardag
Fimmtudagur 11. nóvember 2004 kl. 12:22

Íþróttaakademía: Skóflustunga tekin á laugardag

Fyrsta skóflustungan að Íþróttaakademíu í Reykjanesbæ verður tekin á laugardaginn. Í gær var gengið frá stofnun sjálfseignarstofnunar um Íþróttaakademíu í Reykjanesbæ.
Geir Sveinsson fyrrverandi atvinnumaður og fyrirliði landsliðsins í handbolta hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Íþróttaakademíunnar ses. Geir hefur nýlokið MBA námi frá Háskóla Íslands, segir í fréttatilkynningu frá Reykjanesbæ.

Stofnendur Íþróttaakademíunnar eru Reykjanesbær, Sparisjóðurinn í Keflavík, Eignarhaldsfélag Suðurnesja, Sjóvá Almennar og Íslandsbanki. Í fulltrúaráði er gert ráð fyrir fulltrúum 16 félagasamtaka, fyrirtækja og stofnana sem tengjast íþróttum og heilsueflingu. Þá er unnið að skipun sérstaks ráðgjafaráðs þar sem þjóðkunnir einstaklingar og fræðimenn á sviði íþrótta, heilsueflingar og viðskipta munu eiga sæti.
Í fyrstu stjórn Íþróttaakademíunnar sitja Árni Sigfússon, formaður, Hrannar Hólm, varaformaður, Una Steinsdóttir, ritari, Geirmundur Kristinsson og Sigurður Valur Ásbjarnarson meðstjórnendur. Í varastjórn eru Geir Newman og Böðvar Jónsson.

Verkefni Íþróttaakademíunnar, sem Geir mun stjórna, eru þríþætt: Háskólanám í íþróttafræðum  sem stjórnað er af Háskólanum í Reykjavík og hefst haustið 2005, funda- og námskeiðahald um íþrótta- og heilsutengt efni í samstarfi við íþróttahreyfinguna, HR og heilbrigðisstofnanir, og aðstaða fyrir fjarkennslu í ýmsum námsgreinum en yfir 100 nemendur stunda nú fjarnám á vegum Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum.

Geir Sveinsson er 40 ára Reykvíkingur. Hann starfaði sem atvinnumaður í handbolta á Spáni, í Þýskalandi og Frakklandi í um 10 ára skeið og hefur verið landsliðsmaður í handbolta og fyrirliði liðsins í fjölmörg ár. Geir var kjörinn íþróttamaður ársins á Íslandi árið 1997.


Myndin: Stofnaðilar sjálfseignarstofnunar um Íþróttaakademíu í Reykjanesbæ Talið frá aftari röð vinstri: Sigurður Valur Ásbjarnarson Eignarhaldsfélagi Suðurnesja, Böðvar Jónsson formaður bæjarráðs, Árni Sigfússon bæjarstjóri, Hrannar Hólm KPMG, Geir Sveinsson framkvæmdastjóri Íþróttaakademíunnar. Fremri röð frá vinstri: Una Steinsdóttir, Íslandsbanka, Geirmundur Kristinsson, Sparisjóðnum í Keflavík og Geir Newman, Sjóvá Almennum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024