Íþróttaakademía í Reykjanesbæ tekur til starfa næsta haust
Hafist verður handa við byggingu Íþróttaakademíu í Reykjanesbæ innan skamms en unnið hefur verið hörðum höndum að málinu undanfarna mánuði. Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum í morgun að gerast stofnaðilar að sjálfseignarstofnun akademíunnar. Fyrstu nemendur við Íþróttaakademíuna munu hefja nám við skólann innan árs. Geir Sveinsson fyrrverandi handboltakappi hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Íþróttaakademíunnar.
Húsnæði íþróttaakademíunnar verður reist við hlið Reykjaneshallarinnar og samkvæmt byggingaráætlun verður húsið risið í september á næsta ári. Fyrsta árið munu 30 nemendur stunda nám við akademíuna en um 90 nemendur þegar hún hefur að fullu tekið til starfa. Samningur við Menntamálaráðuneytið um rekstur akademíunnar liggur fyrir en greidd verður ákveðin upphæð með hverjum nemanda.
Boðið verður upp á nám til BS prófs í íþróttafræðum og ýmis námskeið á sviði íþrótta- og heilsufræði, auk fjarkennslu. Íþróttaakademían mun hafa umsjón með íþróttafræðinámi fyrir Háskólann í Reykjavík.
Stofnfundur sjálfseignarstofnunar sem verður rekstraraðili Íþróttaakademíunnar verður haldin eftir viku. Líklegir stofnaðilar félagsins eru auk Reykjanesbæjar, Eignarhaldsfélag Suðurnesja, Lífeyrissjóður Suðurnesja, Íslandsbanki, Landsbanki Íslands og Sparisjóðurinn í Keflavík. Áætlað stofnframlag hvers aðila er 8 milljónir króna.
Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ segir uppbyggingu íþróttaakademíunnar skipta miklu máli fyrir sveitarfélagið. Hann segir uppbygginguna framundan vera mjög spennandi og það sé sérstaklega jákvætt að aðilar af Suðurnesjum komi að stofnun sjálfseignarfélagsins. Þegar Árni er spurður um þýðingu verkefnisins fyrir bæinn nefnir hann uppbygginguna sem átt hefur sér stað í tengslum við Háskólann á Akureyri. „Starfsemi Háskólans á Akureyri byrjaði hinsvegar þannig að stundakennarar voru að fljúga norður en smám saman festist skólinn í sessi. Í dag er Háskólinn á Akureyri mjög öflug eining fyrir heimamenn og ég geri ráð fyrir því að sömu sögu verði að segja hér í Reykjanesbæ með tilkomu íþróttaakademíunnar,“ sagði Árni í samtali við Víkurfréttir.
Tölvumyndir af húsnæði Íþróttaakademíu í Reykjanesbæ.