Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ítarlegu gönguleiðarkorti dreift frítt til Suðurnesjamanna
Þriðjudagur 29. júní 2004 kl. 12:31

Ítarlegu gönguleiðarkorti dreift frítt til Suðurnesjamanna

Nýtt myndkort með alhliða útivistarupplýsingum var kynnt í Fræðasetrinu í Sandgerði í dag. Ferðamálasamtök Suðurnesja standa að útgáfu kortsins, sem er það fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Kortinu verður dreift frítt inn á 6 þúsund heimili á Suðurnesjum og verður til sölu utan svæðisins.

Á kortið eru merktar helstu gönguleiðir á Suðurnesjum, auk hella, áhugaverðra staða og fornra selja. Fyrirtækið Loftmyndir ehf. sá um hönnun kortsins, en kortið er samsett úr um 200 loftmyndum sem teknar hafa verið á Reykjanesi.

Að sögn Kristján Pálssonar formanns Ferðamálasamtaka Suðurnesja er hann mjög ánægður með útkomu kortsins. „Þetta er fyrsta kort sinnar tegundar og það hefur mjög verið vandað til verks. Reykjanesið er einstakt frá náttúrunnar hendi og við vonum að kortið verði til að auka áhuga Suðurnesjamanna á eigin umhverfi. Í tengslum við útgáfu kortsins munu ferðamálasamtökin standa fyrir hvataferðum og leikjum þar sem verðlaun verða í boði,“ sagði Kristján meðal annars á kynningarfundinum.

Arnar Sigursson frá Loftmyndum ehf. sagði í framtíðinni yrði hugsanlega gefin út sýndarveruleikadiskur þar sem hægt verður að fara á ýmsa staði á Reykjanesi.

Gönguleiðarkortið nær yfir Reykjanesið frá Sandgerði í vestri að Herdísarvík í austri og frá Grindavík í suðri til Kópavogs í norðri. Á kortinu eru að finna 22 númeraðar fornar gönguleiðir með nafni og Reykjaveginn sem er um 114 km að lengd. Á kortinu eru fjöldi ónúmeraðra gönguslóða og 33 forn sel eru merkt á kortið, auk 24 hella sem eru á svæðinu. Kortið er GPS-hnitað og eru allar staðsetningar og leiðir mjög nákvæmar og má fylgja þeim með GPS tæki.

Fram kom á fundinum að frekara samstarf við Lofmyndir er fyrirhugað þar sem kortið og notkunarmöguleikar þess verða kynntir enn frekar. Ferðaþjónustuaðilum á Suðurnesjum verður gefin kostur á því að kalla fram kortið í stafrænu formi á netinu. Einnig verður hægt að kalla fram upplýsingar um einstaka staði í farsíma. Sérstakur miðlægur gagnagrunnur er í vinnslu og munu ferðamálasamtökin vinna að því að koma honum upp með Loftmyndum. Ferkari upplýsingar verða inná vefnum www.myndkort.is.

Kortið verður gefið til Suðurnesjamanna og er gjöfin fjármögnuð af Ferðamálasamtökum Suðurnesja, Hitaveitu Suðurnesja, Reykjanesbæ, Sveitarfélaginu Garði og Sandgerðisbæ. Fjölmargir ráðgjafar komu að hönnun kortsins sem hafa mikla reynslu af útivist og gönguleiðum á Reykjanesi.

Myndin: Kristján Pálsson formaður ferðamálasamtaka Suðurnesja, Arnar Sigurðsson frá Loftmyndum og Reynir Sveinsson forstöðumaður Fræðasetursins í Sandgerði rýna í kortið. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024