Ítalski maðurinn kominn í leitirnar
Víkurfréttir auglýstu eftir aðilum sem gætu þekkt ítalskan karlmann að nafni Salvatore Massaro sem búsettur var í Keflavík á árunum í kringum 1950-60. Ástæðan fyrir því var að hjón frá Ítalíu þau, Guiseppe og Sederica eru stödd hérlendis og leituðu þau upplýsinga um manninn sem var afi Guiseppe en hann lést á Íslandi og fjölskyldan vissi nánast ekkert um afdrif mannsins.
Auglýsingin bar ávöxt en Ellert Eiríksson fyrrum bæjarstjóri Reykjanesbæjar kannaðist við manninn og var viljugur til þess að hitta barnabarn hans. Ellert staðfesti að maðurinn hafi búið að Hafnargötu 79 í Keflavík og þar hefði hann m.a. fengist við það að gera við klukkur. Það var augljóst að Guiseppe var ánægður að heyra sögur af afa sínum en hann vissi mjög lítið um manninn og í raun var aldrei vitað af hverju hann kom hingað til lands og ílengdist hér. Gamli maðurinn hafði þá komið hingað til lands þegar hann var um fimmtugt og látist hér um áratug síðar.
Ef þú hefur einhverjar upplýsingar um manninn má hafa samband við Ólöfu í síma 898 7925, eða á skrifstofu Víkurfrétta í síma 421 0000.
Ellert ásamt þeim Guiseppe og Sederica konu hans.