Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Íslenskir bankar undirbúa fjármögnun fyrirhugaðs álvers Norðuráls í Helguvík
Föstudagur 30. mars 2007 kl. 10:11

Íslenskir bankar undirbúa fjármögnun fyrirhugaðs álvers Norðuráls í Helguvík

Norðurál hefur falið Landsbankanum og Kaupþingi í sameiningu að skoða hagkvæmustu leiðir til fjármögnunar á fyrirhuguðu álveri Norðuráls í Helguvík, ásamt endurfjármögnun álversins á Grundartanga. Áætluð fjárfesting Norðuráls vegna framkvæmda við álverið í Helguvík er allt að 70 milljörðum króna. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist síðar á þessu ári og ljúki eigi síðar en árið 2015. Verkið verður áfangaskipt, miðað er við að byggingu fyrsta áfanga verði lokið síðari hluta árs 2010 og að framleiðsla hefjist þá í álverinu.

Sú ákvörðun að leita til íslenskra banka um forsjá með þessu stóra verkefni er í samræmi við þá stefnu Norðuráls að nýta sérfræðikunnáttu, ráðgjöf og þjónustu innlendra aðila eins og kostur er.

Dýrmæt þekking
Á öndverðu ári 2005  höfðu Landsbankinn og Kaupþing forystu um 365 milljóna dala fjármögnun vegna stækkunar og endurfjármögnunar álvers Norðuráls á Grundartanga. Auk Kaupþings og Landsbankans tóku fimm erlendar fjármálastofnanir og tvær innlendar þátt í fjármögnuninni. 
Þetta var í fyrsta skipti sem innlendar lánastofnanir önnuðust fjármögnun af þessu tagi og að sama skapi var um að ræða eitt stærsta fjármögnunarverkefni sem íslenskar lánastofnanir höfðu ráðist í, þannig að til varð dýrmæt reynsla og þekking á þessu sviði. Einn þeirra kosta sem nú eru til skoðunar er að Kaupþing og Landsbankinn hafi forystu um sambankalán með svipuðum hætti og var fyrir tveimur árum.


Árangursríkt samstarf
Að sögn Ragnars Guðmundssonar, framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar og fjármálasviðs Norðuráls, er tilhögun undirbúnings fjármögnunar nú eðlilegt framhald af afar góðu samstarfi þessara aðila undanfarin tvö ár. “Frammistaða íslensku bankanna hefur vakið verðskuldaða athygli stjórnenda Norðuráls og því lá beint við að leita samstarfs við Landsbankann og Kaupþing um komandi fjármögnunarferli.”
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024