Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Íslendingur vekur athygli
Miðvikudagur 23. júní 2004 kl. 10:04

Íslendingur vekur athygli

Mikill áhugi er á víkingaskipinu Íslendingi og mikið hefur verið spurt um skipið, að sögn Rannveigar Garðarsdóttur, hjá Upplýsingamiðstöð Reykjaness. „Erlendir ferðamenn hafa mikinn áhuga á Íslendingi og hann er greinilega mjög vinsæll miðað við allar fyrirspurningar sem ég fæ varðandi skipið“.

Hægt er að skoða Íslending í Rammahúsinu virka daga kl. 13:00 - 16:00, en helgaropnun er í samráði við Gunnar Marel Eggertsson, umsjónarmann í síma 894 2874. Þá geta hópar pantað tima hjá starfsfólki Duus-húsa í síma 421 3796.

Gunnar Marel er um þessar mundir að smíða skektu eða tveggja manna far um leið og hann sýnir gestum Íslending. Í samtali við Helga Bjarnason á Morgunblaðinu segist Gunnar reikna með „að krakkarnir í Reykjanesbæ muni taka því fagnandi þegar þeir fái að róa skektunni um pollinn og lónið sem myndast vegna framkvæmda við ströndina. Þetta sé mun stöðugri og öruggari bátur en plastbátarnir sem mest eru notaðir nú.“ Þá segir Gunnar Marel einnig að draumurinn sé að smíða knörr sem hægt verði að nota til siglinga.

Á tímabilinu 1. maí til 10. júní komu um 1500 gestir að skoða Íslending og fá fræðslu um skipið, þar af um 800 grunnskólanemar víðs vegar af landinu. Erlendir gestir hafa verið frá fjölmörgum löndum og má nefna frá Ameríku, Kanada, Þýskalandi, Danmörku, Noregi og Finnlandi. Nokkrir hafa einnig skoðað Stekkjarkot í leiðinni.

Texti af heimasíðu Reykjanesbæjar
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024