Íslendingur með kókaín innvortis
Lögreglan á Suðurnesjum handtók fyrr í þessum mánuði tæplega þrítugan íslenskan karlmann, sem var með rúmlega 100 grömm af kókaíni innvortis. Var hann handtekinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Tollverðir höfðu stöðvað manninn þegar hann kom til landsins með flugi frá París. Hann viðurkenndi þá að hafa komið efnunum fyrir innvortis og skilaði hann þeim síðan af sér eftir að hann hafði verið fluttur á lögreglustöð.
Lögreglan á Suðurnesjum fór með rannsókn málsins sem telst upplýst. Ekki voru fleiri yfirheyrðir vegna þess.