Íslendingar strauja aftur kortin af kappi
-hófleg uppsveifla miðað við fyrri uppsveiflur hér á landi. Fjölmenni á morgunverðarfundi Íslandsbanka.
Íslendingar hafa straujað kortin sín af nokkuð meiri krafti fyrstu átta mánuði þessa árs en þeir hafa gert undanfarin ár, sérstaklega erlendis en einnig hér heima. Innflutningur hefur aukist mikið á neysluvörum og fleiri nýir bílar hafa selst, allt merki um meiri hagvöxt hér á landi. „Það eru ýmis merki um bata í efnahagslífi þjóðarinnar og hagvaxtahorfur eru góðar að okkar mati. Við væntum þess að atvinnulífið haldi áfram að styrkjast á næstu árum þó svo vissulega sé einhver óvissa í kringum afnám gjaldeyrishafta,“ sagði Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka á morgunverðarfundi bankans í Stapa í morgun.
Ingólfur kom víða við í erindi sínu um stöðuna í efnahagsmálunum í dag en hann var jákvæður í máli sínu, benti á minnkandi atvinnuleysi og betri stöðu á vinnumarkaði. Til að mynda væri farið að flytja inn vinnuafl á nýjan leik. Efnahagur fyrirtækja og heimila hafi batnað mikið með auknum kaupmætti. Fasteignaverð hafi hækkað, skuldahlutfall hafi lækkað, verðbólga minni og stöðug króna.
„Þetta er hófleg uppsveifla miðað við fyrri uppsveiflur hér á landi. Íslenska hagkerfið hefur haft tilhneigingu til að sveiflast meira en önnur í nágrannalöndunum okkar. Hagvöxtur hefur verið hægrari þar að undanförnu, sérstaklega í Evrópu, um 1% en 3% er spáð í Bandaríkjunum þar sem staðan hefur verið betri. Verðbólga hér á landi hefur verið undir markmiðum og stöðugleiki undanfarið sá mesti hér á landi frá því mælingar hófust frá árinu 2001.“
Ingólfur sagði að skuldir heimilanna hafi lækkað mikið á undanförnum árum en ólíkt því sem algengt væri víða úti í heimi, þá ættu Íslendingar frekar sitt húsnæði en leiga væri mun algengari þar. Hluti af skuldsetningu heimila hér á landi liggi aðallega þar. Hann sagði einn mesta batann að undanförnu hafi birst í hækkun húsnæðisverðs og þá hafi laun hækkað um 4% sem væri langtum hærra en úti í heimi. Andlegt ástand almennings lyftist þó hægar og enn vantaði nokkuð upp á í væntingavísitölunni. Hann sagði einkaneyslu hafa aukist á ný með auknum kaupmætti og að hagvöxtur á næstunni myndi byggjast mikið á innlendri eftirspurn sem muni aukast áfram allhratt á næstu árum þó að nokkuð dragi úr vextinum. Í fyrra var hagvöxtur fyrst og fremst borinn uppi af utanríkisviðskiptum en þar hefur ferðaþjónustan komið gríðarlega sterk inn.
Framundan væru þó innan um nokkur óvissa og Seðlabankinn væri að bregðast við markaðnum með hóflegum vaxtahækkunum og þá væri kurr á vinnumarkaði varðandi kjarasamninga einnig hluti af óvissupakkanum. Afnám gjaldeyrishafta fylgdi líka óvissa með tilheyrandi áhrifum á krónu og verðbólgu. Gjaldeyrishöft væru ekki boðlegt umhverfi til lengri tíma.
Sighvatur Gunnarsson, útibússtjóri Íslandsbanka bauð gesti velkomna.