Íslendingar annist rekstur Keflavíkurflugvallar
Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjáslynda flokksins, telur að íslensk stjórnvöld þurfi að hefja undirbúning að áætlunum til þess að taka yfir starfsemi og viðhald Keflavíkurflugvallar. Hann telur víst að Bandaríkjamenn muni ekki hafa áhuga á að viðhalda varnarviðbúnaði hér á landi til langframa þótt vilyrði hafi fengist frá æðstu ráðamönnum í Washington um að áformum um breytingar á vellinum yrði frestað um sinn. "Ég held að staðan í þessu máli sé sú að við Íslendingar þurfum ekki að gera ráð fyrir því til langframa að Bandaríkjamenn hafi mikinn áhuga á að vera með her hér á landi. Þeirra áherslur í varnar- og öryggismálum í veröldinni hafa verið að færast yfir á önnur svæði í heiminum en Norður-Evrópu þar sem menn eru að horfa á samruna þjóða eins og í gegnum Evrópusambandið," segir Guðjón Arnar.
Hann telur mikilvægt að tryggt verði að á Íslandi verði viðhaldið útbúnaði sem gerir Bandaríkjamönnum eða Atlantshafsbandalaginu kleift að nýta sér þá aðstöðu með mjög skömmum fyrirvara. "Það er auðvitað okkar hagur að viðhalda stöðinni og það getum við gert með samningum við Atlantshafsbandalagið um að það greiði hlut af kostnaðinum en við sjáum um að halda þessari stöð við þannig hér megi koma inn með varnarlið með tiltölulega mjög skömmum fyrirvara ef slíkar aðstæður skapast," segir Guðjón.
Guðjón bendir á að þótt ekki þurfi að vera nauðsynlegt að viðhalda herliði á Keflavíkurflugvelli þá þjóni völlurinn samt sem áður mikilvægu hernaðarlegu hlutverki auk þess sem hann þjóni sem neyðarflugvöllur fyrir vélar sem fljúga yfir Atlantshafið. Hann segir að þessi staða vallarins ætti að duga til þess að hægt yrði að komast að samkomulagi við aðrar þjóðir Atlantshafsbandalagið um kostnaðarþátttöku við rekstur og viðhald vallarins.
Árni Sigfússon:
Ekki órökrétt ábending
Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir ábending Guðjóns Arnar Kristjánssonar, um að Íslendingar undirbúi sig undir að taka yfir rekstur flugvallarins í Keflavík, séu ekki órökréttar.
„Umræðum og ákvörðunum um skipulag varnarmála, og hlut Íslands í því, er ekki lokið og þegar þeim ákvörðunum kemur hlýtur það að verða umræðuefni hver hlutur Íslendinga eigi að vera þessum vörnum,“ segir Árni.
Árni segir að Björn Bjarnason hafi verið í forsvari fyrir umræðu um aukinn hlut Íslands í varnarmálaumræðum og að staða hans sem dómsmálaráðherra hljóti styrkja þá umræðu.
Fréttablaðið greinir frá þessu í gær og í dag.