Íslandsmót á Mánagrund um helgina
Hestamannafélagið Máni stendur um helgina fyrir Íslandsmótinu í hestaíþróttum. Mótið verður eitt það stærsta á árinu þar sem 340 keppendur mæta til leiks og hefst keppni á hádegi á föstudag og stendur fram á sunnudag. Að undanförnu hafa verið miklar framkvæmdir við keppnissvæðið við Mánagrund og er aðstaða orðin öll hin glæsilegasta. M.a. er komin upp glæný skeiðbraut auk þess sem byggt hefur verið nýtt dómarahús við aðalvöllinn. Margeir Þorgeirsson, formaður Mána sagði í samtali við Víkurfréttir að mikill spenningur væri í mönnum fyrir mótið. „Það er löngu kominn tími á að halda mót hér þar sem við höfum ekki haldið Íslandsmótið síðan 1982. Ég vil hvetja bæjarbúa til að mæta á svæðið og fylgjast með enda verður hægt að sjá bestu hesta og knapa landsins frá morgni til kvölds alla helgina.“
Mikill vöxtur hefur verið í hestamennsku á svæðinu á síðustu árum og eru félagar í Mána nú um 400 talsins. Gengi þeirra á mótum hefur verið með miklum ágætum og er þar skemmst að minnast frábærs árangurs á landsmótinu fyrir skömmu.
Samkaup er einn stærsti styrktaraðili Íslandsmótsins. Skúli Skúlason starfsmannastjóri Samkaupa sagði að það hafi vakið athygli Samkaupa sú mikla áhersla sem Máni hefur lagt í unglingastarfið og þátttöku fjölskyldunnar í íþróttinni. „ Þetta viljum við hjá Samkaupum viðurkenna og leggja til okkar framlag til áframhaldandi uppbyggingar. Það er líka viðurkenning fyrir Mána að halda Íslandsmót unglinga og mikilvægt að það fari vel fram í alla staði.“
Myndin: Skúli Skúlason starfsmannastjóri Samkaupa og Margeir Þorgeirsson frá Mána stilltu sér upp til myndatöku ásamt tveimur knöpum úr Mána eftir undirskriftina.