Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Íslandsmet í skuldasöfnun“
Föstudagur 23. október 2009 kl. 09:59

„Íslandsmet í skuldasöfnun“


Bæjarfulltrúar A-listans í Reykjanesbæ segja nýlegt bréf Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga til bæjarstjórnar Reykjanesbæjar staðfesta málflutning og gagnrýni þeirra á fjármálastjórnun sjálfstæðismanna.
Þeir benda á að í bréfinu komi fram að skuldir bæjarsjóðs nemi tæpum 1600 þúsundum á hvern íbúa á meðan meðaltalið í öðrum sveitarfélögum sé 770 þúsund á hvern íbúa.

Þetta kemur fram í bókun sem A-listinn lagði fram á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ síðastliðinn þriðjudag.

Bókunin er svohljóðandi:


„Íslandsmet í skuldasöfnun
-Og þó víðar væri leitað-

Bréf Eftirlitsnefndar með fjármálum Sveitarfélaga til bæjarstjórnar Reykjanesbæjar dags. 1. október 2009 staðfestir málflutning og gagnrýni bæjarfulltrúa A-listans á fjármálastjórnun sjálfstæðismanna allt þetta kjörtímabil og raunar málflutning minnihlutans í Reykjanesbæ frá árinu 2002 eða frá því að Sjálfstæðisflokkurinn komst einn til valda í Reykjanesbæ.

Fram kemur í bréfinu að skuldir og skuldbindingar sveitasjóðs nemi 22.699 milljónum króna eða 1.598 þúsundum króna á hvern íbúa á meðan heildarskuldir sveitarfélaga í landinu nema að meðaltali um 770 þús. kr. á hvern íbúa. Íbúar Reykjanesbæjar skulda því að jafnaði rúmlega tvöfalt meira en íbúar annara sveitarfélaga í landinu.

Sérstakt áhyggjuefni er að skuldir og skuldbindingar á hvern íbúa Reykjanesbæjar hafa þrefaldast í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins eða frá árinu 2002. Þetta gerist þrátt fyrir að íbúum hafi fjölgað um 30% á þessu tímabili og tekjur aukist gríðarlega samhliða því. Þá er Reykjanesbær eitt sjö sveitarfélaga á landinu með neikvætt veltufé frá rekstri þrátt fyrir hækkandi tekjur sem er sérstakt áhyggjuefni út af fyrir sig.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024