Íslandsbanki og Hjallatún fengu fjölskylduverðlaun
Íslandsbanki hlaut í dag viðurkenninguna fjölskylduvænsta fyrirtækið í Reykjanesbæ.
Þá fékk leikskólinn Hjallatún einnig viðurkenningu fyrir að vera fjölskylduvænsta stofnun innan Reykjanesbæjar.
Þetta var í fyrsta sinn sem þessi verðlaun voru veitt en stefnt er að því að þau verði árlegur viðburður héðan í frá. Starfsmenn tilnefndu sín fyrirtæki og sendu með tilnefningu rökstuðning sem dómnefnd á vegum Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar.
Starfsmenn Íslandsbanka sögðu sinn vinnustað mjög mannlegan og fjölskylduvænan og nefndi nokkur atriði því til stuðnings. Í fyrsta lagi væri mjög markviss jafnræðisáætlun í gangi innan fyrirtækisins sem stuðlaði að jafnræði á milli starfs og einkalífs.
Innan þeirra stefnu eru karlmenn til dæmis hvattir til að axla ábyrgð á fjölskyldumálum og er gert ráð fyrir þátttöku maka í félagsstarfi starfsmanna. Einnig er allt starfsfólk hvatt til að nýta helgar til að sinna fjölskyldunni.
Þá hefur útibú Íslandsbanka í Reykjanesbæ sýnt barnafólki mikinn skilning í öllu sem viðkemur skóla, veikindum barna og þar fram eftir götunum. Það skili sér í ábyrgari starfsmönnum og meiri ánægju á vinnustað.
Leikskólinn Hjallatún hefur aðeins starfað í þrjú ár og segir í umsögn starfsmanna þar að mikil áhersla hafi verið lögð á að skólinn sé fjölskylduvænn vinnustaður.
Þannig hafa starfsmenn, allt frá fyrsta degi, fengið að koma með börn sín til vinnu og fundi ef nauðsyn beri til.
Nýjasta átak þeirra er hins vegar fjölskyldutréð svokallaða, en það fólst í því að starfsmenn kynntu sig og fjölskyldu sína fyrir samstarfsfólki, einn í senn, á hverjum starfsmannafundi. Eftir að allir starfsmenn höfðu kynnt sig og fjölskyldu sína var fjölskyldutréð sett upp og á því hanga upplýsingar um fjölskyldu hvers starfsmanns.
Í kjölfarið var svo haldið heljarinnar fjölskylduhátið í Sólbrekkuskógi þar sem var farið í leiki, grillað og borðað saman.
Íslandsbanki í Reykjanesbæ og Hjallatún eru sannarlega góðar fyrirmyndir fyrir önnur fyrirtæki og stofnanir hér í bæ og er von að enn fleiri komi til greina á næsta ári.
VF-myndir Þorgils Jónsson